Stóraukinn áhugi á verðbréfum

Viðskipti með hlutabréf og sjóði margfölduðust á milli ára og góður árangur náðist í eignastýringu, hjá sjóðum Landsbréfa og við miðlun verðbréfa og gjaldeyris. Viðskiptavinir sýndu fjárfestingarkostum okkar mikinn áhuga og kunnu greinilega vel að meta hversu einfalt er að eiga viðskipti með hlutabréf og sjóði í sjálfsafgreiðslu.

Feðgin

Heimsfaraldurinn hafði það í för með sér að öll höfðum við færri ferðamöguleika og færri tækifæri til að nýta okkur ýmsa þjónustu. Þetta varð til þess að hjá mörgum safnaðist upp töluverður sparnaður. Um leið urðu vaxtalækkanir til þess að einstaklingar og lögaðilar leituðu að nýjum tækifærum til að ávaxta sparnað sinn. Þessar breytingar, auk áhugaverðra hlutafjárútboða á árinu, leiddu til þess að áhugi á verðbréfaviðskiptum stórjókst. Fjöldi samninga um nýja vörslureikninga, sem eru reikningar til að geyma verðbréf, margfaldaðist á milli ára. Hjá okkur tóku viðskipti með sjóði og hlutabréf í netbankanum líka mikið stökk og mikill vöxtur var í eignastýringu. Viðskipti með sjóði hafa aukist um 40% milli ára og viðskipti með hlutabréf hafa tvöfaldast.

Einfalt að kaupa og fylgjast með

Um 80% af öllum viðskiptum með sjóði og hlutabréf hjá bankanum fara fram í gegnum sjálfsafgreiðslu. Það er einstaklega einfalt að kaupa í sjóðum og kaupa hlutabréf á netinu eða fylgjast með verðbréfaeign sinni í netbankanum og appinu. Hægt er að stofna vörslureikning á nokkrum mínútum, eiga viðskipti með sjóði og hlutabréf eða stilla upp reglubundnum sparnaði án mikillar fyrirhafnar. Við sjáum skýrt og greinlega að viðskiptavinir kunna vel að meta að geta átt viðskipti með sjóði Landsbréfa eða stök hlutabréf, hvar og hvenær sem er.

Frá ráðstefnu um mikilvægi eignadreifingar

Fróðlegar greinar og fundir um verðbréfaviðskipti

Við leggjum mikla áherslu á vandaða og trausta fræðslu og á árinu gáfum við út fjölda greina um verðbréfaviðskipti. Við fjölluðum m.a. um hvers vegna mikilvægt er að huga að eignadreifingu og hvað þarf helst að hafa í huga við kaup á hlutabréfum eða í sjóðum. Þá stóðum við fyrir fræðslufundi í Hörpu um mikilvægi eignadreifingar undir yfirskriftinni Fara markaðir bara upp?

Aukin umsvif og auknar tekjur

Eignastýring Landsbankans náði góðum árangri á árinu 2021. Eignir í stýringu hjá samstæðunni jukust um 31% og samningar um eignastýringu voru 25% fleiri en árið 2020. Tekjur vegna eignastýringar og miðlunar jukust töluvert á milli ára, m.a. vegna aukinnar veltu á hlutabréfamarkaði, góðum viðtökum fjárfesta á nýjum vörum okkar og vel heppnuðum skuldabréfa- og hlutabréfaútboðum. Eftir afléttingu gjaldeyrishafta nýta sífellt fleiri fyrirtæki og fjárfestar sér gjaldeyrisvarnir og þær nýjungar sem við höfum kynnt í verðbréfaafleiðum hafa gefið góða raun.

Útgáfa fyrsta sjálfbærniskuldabréfsins

Landsbankinn og Landsbréf settu sér skýra stefnu um ábyrgar fjárfestingar árið 2013 og erum við leiðandi á þessu sviði. Við teljum að ábyrgar fjárfestingar hafi jákvæð áhrif á ávöxtun til lengri tíma og dragi úr rekstraráhættu. Á undanförnum árum höfum við kynnt ýmsar nýjungar á þessu sviði sem viðskiptavinir og fjárfestar hafa kunnað vel að meta.

Meðal þeirra verkefna sem við komum að á árinu 2021 var útgáfa á fyrsta íslenska sjálfbærniskuldabréfinu sem Sveitarfélagið Árborg gaf út í júní. Sjálbærniskuldabréf er frábrugðið grænu skuldabréfi. Græn skuldabréf eru gefin út til að fjármagna tiltekið verkefni eða fjárfestingu. Sjálfbærniskuldabréf er gefið út til fjármögnunar á félagi sem hefur skuldbundið sig til að ná tilteknum úrbótum eða markmiðum sem falla undir sjálfbærniumgjörð félagsins. Bankinn sá um ferlið frá upphafi til enda, frá því að veita ráðgjöf við gerð sjálfbærniumgjarðar, til sölu skuldabréfa og töku þeirra til viðskipta. Viðtökur fjárfesta við þessari nýjung voru mjög góðar.

Íslensk náttúra

Þurfa alltaf að vera á tánum

„Starfið mitt sem viðskiptastjóri í Einkabankaþjónustu bankans er mjög margþætt og skemmtilegt. Einkabankaþjónustan, sem tilheyrir Eignastýringu og miðlun, er vildarþjónusta sem bankinn veitir eignasterkum viðskiptavinum og ég er í teymi sem einbeitir sér að eignasterkum einstaklingum. Samhliða eignastýringunni fá viðskiptavinir sinn persónulega viðskiptastjóra sem þeir geta verið í sambandi við varðandi fjárfestingar sínar og ráðgjöf, auk þess að geta leitað til okkar um alla almenna bankaþjónustu. Þegar viðskiptavinur er kominn í viðskipti skiptir máli að halda tengslunum lifandi, ráðgjöfin þarf að vera fagleg og góð og svo þurfa stýringarsöfnin auðvitað að sýna ávöxtun sem allir eru sáttir við. 

Góður árangur hjá Landsbréfum

Rekstur Landsbréfa hf., dótturfélags bankans, gekk vel á árinu. Ávöxtun sjóða félagsins var almennt mjög góð og rekstrarniðurstaðan var umtalsvert betri en á árinu 2020. Á árinu voru kynntir til sögunnar þrír nýir sjóðir sem hafa fengið góðar undirtektir á meðal fjárfesta. Aðrir sjóðir í rekstri stækkuðu umtalsvert, bæði vegna fjölda nýrra viðskiptavina og góðrar ávöxtunar. Sjóðir Landsbréfa er nú um 40 talsins.

Landsbréf hafa á undanförnum árum kynnt nokkra framtakssjóði sem hafa á undanförunum árum fjárfest með góðum árangri sem umbreytingar- og áhrifafjárfestar í innlendum fyrirtækjum. Á árinu 2021 hófst slitaferli á framtakssjóðnum Horni II sem var settur á laggirnar árið 2013. Ávöxtun sjóðsins var afar góð eða sem samsvarar um 25% árlegri ávöxtun. Féð sem fjárfestar, að uppistöðunni til lífeyrissjóðir, settu inn í upphafi hefur þrefaldast.

Nýir og spennandi sjóðir

Við kynntum nýja sjóði á árinu: Horn IV, Brunn vaxtarsjóð II og Eignadreifingu sjálfbæra.

Horn IV er 15 milljarða króna sérhæfður framtakssjóður (e. private equity). Þetta er lokaður sjóður 30 fagfjárfesta sem er ætlað að beina sjónum sínum að óskráðum íslenskum hlutabréfum. Fjárfestingartímabil sjóðsins er til loka júlí 2025 og áætlaður líftími er út árið 2031.

Brunnur vaxtarsjóður II slhf. er sérhæfður vísisjóður (e. venture capital fund) sem hóf starfsemi á árinu og er 8,3 milljarðar króna að stærð. Sjóðurinn er samlagshlutafélag sem rekið er af Landsbréfum í samstarfi við ábyrgðaraðila félagsins, Brunn Ventures GP ehf. Auk ábyrgðaraðila eru um 11 fagfjárfestar hluthafar í félaginu. Fjárfestingartímabil sjóðsins er til 2024 með heimild til að framlengja það til 2026 og áætlaður líftími er til apríl 2031.

Eignadreifing sjálfbær hs. er sérhæfður eignadreifingarsjóður fyrir almenna fjárfesta. Markmið sjóðsins er að ná fram ávöxtun og dreifingu áhættu með sjálfbærni að leiðarljósi. Við teljum að fyrirtæki með háa sjálfbærnieinkunn séu líklegri en önnur til þess að ávaxta vel peninga viðskiptavina okkar. Í þessum nýja sjóði göngum við enn lengra í þessum efnum og fjárfestum eingöngu í fjármálagerningum sem eru gefnir út af aðilum sem skara fram úr á sviði sjálfbærni og hafa fengið háa sjálfbærnieinkunn frá óháðum matsfyrirtækjum.

Mikilvægi eignadreifingar og virkrar stýringar

Góður árangur Landsbréfa og sjóða í rekstri félagsins endurspeglar vel það traust sem viðskiptavinir sýna félaginu, hagkvæmar markaðsaðstæður og sömuleiðis gildi eignadreifingar og virkrar stýringar þar sem aðferðafræði ábyrgra og sjálfbærra fjárfestinga er höfð að leiðarljósi.

Undanfarin tvö ár hafa verið einstaklega lærdómsrík. Almennt hafa sjóðir Landsbréfa komið vel út í heimsfaraldrinum, þrátt fyrir umtalsverðar sveiflur á mörkuðum og sögulega lágt vaxtaumhverfi. Framundan eru áhugaverðir tímar sem hvoru tveggja fela í sér tækifæri og áskoranir. Landsbréf munu hér eftir sem hingað til leggja allt kapp á að ávaxta það fé sem félaginu er treyst fyrir með skynsamlegum og ábyrgum hætti og bjóða upp á þær vörur sem viðskiptavinir kalla eftir.

Lífeyrissparnaður jókst um 29 milljarða króna

Þegar kemur að lífeyrissparnaði bjóðum við upp á víðtæka og góða þjónustu. Við bjóðum fjölbreyttar ávöxtunarleiðir fyrir séreignarsparnað og Íslenski lífeyrissjóðurinn ávaxtar bæði skyldulífeyrissparnað og séreignarsparnað fyrir viðskiptavini okkar, en Landsbankann annast daglegan rekstur sjóðsins.

Í lok árs 2021 nam lífeyrissparnaður sem Landsbankinn stýrði 222 milljörðum króna og hafði vaxið um 29 milljarða króna á árinu. Þar af voru eignir Íslenska lífeyrissjóðsins 140 milljarðar króna. Alls námu eignir Lífeyrisbókar Landsbankans 70 milljörðum króna og eignir í Lífeyrissparnaði - erlend verðbréf námu 4 milljörðum króna. Landsbankinn sér jafnframt um rekstur Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands en eignir hans námu 9 milljörðum króna í lok árs 2021.

Góð ávöxtun á lífeyrissparnaði Landsbankans

Við náðum góðri ávöxtun á lífeyrissparnaði á árinu 2021. Nafnávöxtun hjá Íslenska lífeyrissjóðnum var allt að 15,3%, samkvæmt óendurskoðuðum niðurstöðum. Nafnávöxtun samtryggingardeildar var 12,9% og nafnávöxtun Líf I, sem er stærsta séreignardeild sjóðsins, var 15,3% á árinu 2021.

Sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar

Íslenski lífeyrissjóðurinn endurnýjaði stefnu sína um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar á árinu. Með stefnu um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar lýsir Íslenski lífeyrissjóðurinn skýrum vilja til að leggja aukna áherslu á sjálfbærni, umhverfis- og loftslagsmál, jákvæð samfélagsáhrif og góða stjórnarhætti við rekstur sjóðsins og fjárfestingarákvarðanir. Íslenski lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á ábyrgar fjárfestingar, þ.m.t. að fjármunir sjóðfélaga nýtist til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag og takmarka eins og kostur er neikvæð áhrif af fjárfestingum.

Í stefnunni er jafnframt lögð áhersla á virka upplýsingagjöf um starfsemi sjóðsins, m.a. sjálfbærni- og fjárhagsupplýsingar. Samhliða nýrri stefnu hefur Íslenski lífeyrissjóðurinn stóraukið upplýsingagjöf um eignasafn sjóðsins þar sem birtar eru UFS-einkunnir einstakra útgefenda og sjóða (UFS stendur fyrir umhverfismál, félagslegir þættir og stjórnarhættir). Þá birtir sjóðurinn jafnframt upplýsingar um kolefnisspor eignasafnsins. Á liðnum árum hefur sjóðurinn aukið fjárfestingar í grænum fjárfestingum og eru nú um 25% af erlendu eignasafni sjóðsins í sjóðum sem birta upplýsingar um UFS.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur