Það er hægt að skipta starfinu í þrjá meginþætti, þ.e. að ná í viðskiptavini, að viðhalda viðskiptasambandinu og að vera á tánum varðandi markaðinn til að geta ráðlagt fólki um þessi mál.
Viðskiptavinir koma til okkar í þjónustuna í gegnum ýmsar leiðir. Stór hluti kemur í gegnum útibúanet bankans en einnig koma viðskiptavinir til okkar eftir að hafa fengið meðmæli frá núverandi viðskiptavinum, í gegnum persónuleg tengsl og fleira. Í upphafi fer fram þarfagreining hjá viðskiptavininum. Við kynnum hvað felst í eignastýringu og þjónustunni okkar og ef þetta er eitthvað sem hentar viðskiptavininum og hann er tilbúinn í, er í kjölfarið gerður eignastýringarsamningur milli hans og bankans.
Frumkvæði er nauðsynlegt, það þarf að taka upp símann og hringja að fyrra bragði bæði í hugsanlega og núverandi viðskiptavini. Það hefur verið mikill og góður gangur hjá okkur í Eignastýringunni og Einkabankaþjónustunni síðustu misserin. Við væntum þess að sá gangur haldi áfram og þegar vel gengur er alltaf gaman.
Stór partur af starfinu felst svo í að halda þekkingunni við. Markaðurinn er auðvitað mjög lifandi og allt gengur þetta út á framtíðarvæntingar um ávöxtun út frá einhverjum efnahagsbreytum eða breytum tengdum einstökum félögum. Í hverri viku er því töluvert um upplýsingafundi hjá okkur með t.d. miðlurum, innlendum sem erlendum sjóðstjórum og hjá okkur innan deildarinnar. Einnig þarf maður að fylgjast vel með fréttum og lesa sér til sjálfur. Maður er stanslaust að viða að sér upplýsingum úr öllum áttum og koma þeim áfram til viðskipavina.
Helstu breytingar sem hafa átt sér stað varðandi einkabankaþjónustu á þessum árum sem ég hef verið hér er eignastýringarfyrirkomulagið. Það hefur færst úr svokallaðri pottastýringu í sjóðastýringu sem er einfaldari í framkvæmd og hagkvæmari. Í öðru lagi hefur öll umræða og aðgerðir tengdar ábyrgum fjárfestingum, þar sem horft er til þessara UFS-þátta (umhverfismál, félagslegir þættir og stjórnarhættir), tekið stakkaskiptum. Eignastýringarheimurinn allur er að færast hratt í þessa átt.“