Ávarp formanns bankaráðs

Afkoma Landsbankans á árinu 2021 var góð og staða bankans er sterk. Arðsemi bankans á árinu 2021 var 10,8%, í samræmi við langtímamarkmið bankans sem er að skila um eða yfir 10% arðsemi á eigið fé.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs

Árangur Landsbankans á árinu 2021 byggir að stórum hluta á því að markvisst hefur verið unnið eftir stefnu bankans sem samþykkt var árið 2020. Eitt helsta stefnumið okkar er að stuðla að ánægju viðskiptavina. Við erum því afar stolt og ánægð með að bankinn hafi mælst efstur í Íslensku ánægjuvoginni árið 2021, þriðja árið í röð, en einnig staðfesta okkar eigin kannanir mikla ánægju viðskiptavina. Þá er afar ánægjulegt hversu margir nýir viðskiptavinir hafa bæst í hópinn en markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði er nú 39,5% og hefur aldrei verið hærri.

Áhersla á hagstæð kjör á íbúðalánum ásamt þægilegri og skjótri þjónustu á vafalaust stóran þátt í fjölgun nýrra viðskiptavina og stóraukinni markaðshlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði. Á aðeins fimm árum hefur hlutdeildin aukist úr 17% í 29% og er Landsbankinn nú langstærsti einstaki lánveitandinn á þessum markaði. Ef aðeins er litið til viðskiptabankanna þriggja er hlutdeildin um 41%. Fjöldi þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref á íbúðalánamarkaði og taka lán hjá bankanum endurspeglar þau samkeppnishæfu kjör sem við bjóðum vegna fyrstu kaupa en markaðshlutdeild meðal fyrstu kaupenda var um 46% á árinu 2021, samkvæmt könnun Gallup.

Mikil aukning íbúðalána veldur því að á árinu 2021 gerðist það í fyrsta skipti að heildarútlán til einstaklinga í lánasafni bankans voru hærri en heildarútlán til fyrirtækja.

Munurinn er ekki mikill en engu að síður er um merkileg tímamót að ræða því aðeins fyrir nokkrum árum voru útlán til fyrirtækja um 60% af lánasafninu en um 40% voru lán til einstaklinga.

Kostnaður heldur áfram að lækka

Um leið og tekjur hafa aukist hefur rekstrarkostnaður haldið áfram að lækka. Árangur bankans er eftirtektarverður og má benda á að á síðasta ári var kostnaðarhlutfall bankans, þ.e. kostnaður miðað við heildartekjur, um 43,2%, en það hlutfall er svipað og hjá þeim bönkum á Norðurlöndunum sem hafa náð hvað bestum rekstrarárangri. Sem hlutfall af heildareignum hefur rekstrarkostnaður lækkað jafnt og þétt. Á árinu 2021 var þetta hlutfall 1,4% en fyrir nokkrum árum var þetta hlutfall stöðugt í kringum 2%. Rekstrarkostnaður, reiknaður sem hlutfall af heildareignum og heildartekjum, tekur að sjálfsögðu mið af því að efnahagsreikningur bankans hefur stækkað verulega og tekjur aukist. En jafnvel ef litið er til krónutöluhækkana sést vel hversu góður árangurinn er.

Greiði reglulegan og sérstakan arð

Traustur og stöðugur rekstur og sterk fjárhagsstaða bankans gerir það að verkum að bankinn getur greitt hluthöfum sínum arð. Í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans hyggst bankaráð leggja til við aðalfund að arðgreiðslan nemi 14,4 milljörðum króna, eða sem samvarar um 50% af hagnaði ársins 2021. Verði þessi tillaga samþykkt á aðalfundi munu arðgreiðslur Landsbankans á árunum 2013-2022 samtals nema um 160,6 milljörðum króna en arðgreiðslurnar hafa að langmestu leyti runnið í ríkissjóð Íslands. Þá er bankaráð jafnframt með til skoðunar að leggja til að greiddur verði út sérstakur arður á árinu 2022.

Styðjum viðskiptavini

Rekstur Landsbankans tekur að sjálfsögðu mið af aðstæðum í efnahagslífi þjóðarinnar og ljóst er að staða efnahagsmála er betri nú en flest okkar þorðu að vona þegar heimsfaraldurinn skall á. Horfur eru á góðum hagvexti og þótt blikur séu á lofti með þróun verðbólgu eru vextir lægri en við höfum átt að venjast og kaupmáttur er hærri en nokkru sinni fyrr. Kreppan sem fylgdi faraldrinum er nefnilega sérstök að því leyti að hún hefur mest bitnað efnahagslega á tiltölulega litlum hluta landsmanna, þ.e.a.s. á þeim sem misstu vinnuna eða starfa í þeim geirum sem faraldurinn hefur haft mest áhrif á, ferðaþjónustu, veitingarekstri, tónlist og leiklist, svo það helsta sé nefnt.

Höggið sem ferðaþjónustan varð fyrir var gríðarlega þungt. Árið 2019 komu hingað um tvær milljónir ferðamanna. Vegna faraldursins fækkaði þeim niður í um 480.000 en þeir voru um 690.000 á árinu 2021. Sú mikla uppbygging sem orðið hefur í ferðaþjónustu undanfarin ár rennir stoðum undir væntingar um að Íslendingar geti uppskorið ríkulega þegar faraldrinum linnir og ferðalög aukast á nýjan leik.

Þjónusta um allt land og allan sólarhringinn

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi stafrænar lausnir. Viðskiptavinir eru mjög ánægðir með þær og notkun á þeim fer sífellt vaxandi.

En ólíkt öðrum fjármálafyrirtækjum leggjum við jafnframt ríka áherslu á að vera til staðar um allt land. Þannig er bankinn með útibú og afgreiðslur á 29 stöðum á landsbyggðinni og sjö útibú á höfuðborgarsvæðinu.

Það er leitun að öðru þjónustufyrirtæki með jafn víðtækt þjónustunet. Með þessu hafa myndast óviðjafnanleg tengsl, jafnt við einstaklinga sem fyrirtæki. Öllum er þó ljóst að þörfin fyrir þjónustu í útibúum hefur minnkað og þangað sækja færri viðskiptavinir. Við höfum brugðist við með ýmsum hætti, m.a. með því að stytta afgreiðslutíma en lengja þann tíma sem hægt er bóka fjarfundi til kl. 18. Við höfum einnig séð til þess að starfsfólk í útibúum um allt land geti í auknum mæli annast verkefni sem ekki eru háð staðsetningu. Þótt það sé áfram stefna okkar um að vera til staðar um allt land munum við halda áfram að þróa útibúanetið okkar með hliðsjón af breytingum í rekstrarumhverfinu og breyttum þörfum viðskiptavina okkar.

Örar breytingar á fjármálamarkaði

Breytingar á rekstrarumhverfi Landsbankans felast ekki síst í aukinni samkeppni á fjármálamarkaði frá breiðari hópi fjártækni- og fjármálafyrirtækja, innlendra sem erlendra. Samkeppnisumhverfið hefur raunar breyst hraðar og meira en flest okkar reiknuðu með. Lagaumhverfið, tæknibreytingar og breyttar neysluvenjur þýða að þróunin er á fleygiferð og við þurfum stöðugt að koma með nýjar lausnir sem leysa þarfir viðskiptavina. Það ætlum við svo sannarlega að gera og bankinn er í mjög góðri stöðu til að sækja fram á markaði. Þessari þróun fylgir jafnframt flóknara og viðameira eftirlit sem Landsbankinn, líkt og önnur kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, þurfa að sæta. Við gerum okkur grein fyrir því að með því undirgangast og uppfylla strangar kröfur skapast traust til okkar sem við erum þakklát fyrir. En um leið er rétt að benda á að það er mikilvægt að eftirlitið og þau gjöld sem lögð eru á bankann séu ekki meira íþyngjandi fyrir okkur en keppinauta okkar, innanlands sem erlendis.

Leiðandi í sjálfbærni

Það er lofsvert hversu margir einstaklingar og fyrirtæki hafa sýnt frumkvæði í að auka sjálfbærni í sínu nærumhverfi og í sinni starfsemi á síðustu árum.

Landsbankinn hefur um árabil verið í forystu þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni og við ætlum okkur áfram að vera leiðandi í þeim breytingum sem nú eru að verða á fjármálamarkaði með aukinni áherslu á sjálfbær fjármál.

Við erum á því að setja þurfi loftlagsmálin jafnvel að enn ofar á lista þeirra áhættuþátta sem bankar þurfa að meta og líta til. Við höfum dæmi bæði hér heima og að utan sem sýna að veðurfarsbreytingar geta haft mikil áhrif á fólk og fyrirtæki bæði til lengri og skemmri tíma. Í vetur hefur þurrkatíð valdið því að vatnsstaða miðlunarlóna margra mikilvægustu vatnsaflsvirkjana landsins er óvenju lág. Þótt væntanlega sé aðeins um skammtímasveiflu að ræða er þetta ágætt dæmi um hvernig sveiflur í veðurfari geta haft mikil og neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja.

Sóknarfæri í nýju og hentugra húsnæði

Breytingar á bankaþjónustu hafa kallað á ný vinnubrögð hjá bankanum. Sífellt fleiri verkefni eru unnin í náinni samvinnu á milli ólíkra deilda bankans, í litlum og stórum teymum. Ein af ástæðum þess að bankaráð tók þá ákvörðun vorið 2017 að hafist yrði handa við að reisa nýtt hús fyrir bankann var sú að núverandi húsakostur í Kvosinni hentar ekki vel fyrir slíka vinnu. Við hönnun á nýja húsinu var sérstaklega horft til þessara þátta auk þess sem skipulag hússins er sveigjanlegt og auðvelt að breyta notkun þess í takti við nýjar áherslur. Við teljum að flutningur í Austurbakka muni skapa okkur ný tækifæri til að beisla enn betur þann mikla kraft og þekkingu sem býr í starfsfólkinu.

Starfsemi bankans í Kvosinni er nú dreifð um 12 hús og reglulega verður töluvert og kostnaðarsamt rask þegar breyta þarf skipulagi, s.s. vegna breytinga á starfsemi bankans. Þá eru húsin komin til ára sinna en elsta húsið sem bankinn nýtir er frá árinu 1907 og hið yngsta frá um 1970. Við flutninga í nýtt hús mun bankinn hætta notkun á húsunum við Austurstræti, Hafnarstræti og Tryggvagötu sem hann hefur nú til afnota. Bankinn á fjögur þessara húsa, Austurstræti 11 og Hafnarstræti 10, 12 og 14. Undirbúningur að sölu húsanna er hafinn en við munum huga sérstaklega að framtíð Austurstrætis 11 enda hefur það hús einstakt menningar- og sögulegt gildi og þarf að fá að njóta sín til framtíðar.

Meiri kraftur með skipulagsbreytingum

Í upphafi ársins 2021, í kjölfar þess að ný stefna tók gildi, voru Mannauðsdeild, Markaðs- og samskiptadeild og Hagfræðideild sameinaðar undir hópnum Samfélag. Tilgangurinn var að styrkja og styðja við samstarf þessara deilda í samræmi við áherslur í nýrri stefnu um nýja nálgun við viðskiptavini, m.a. í fræðslu, samskiptum og einnig varðandi þjálfun starfsfólks. Til að auka enn frekar slagkraftinn í þessum deildum var á vormánuðum ákveðið að Samfélag yrði að nýju sviði innan bankans en þannig viljum við undirstrika þá miklu áherslu sem við leggjum á þessi mál og stuðla að því að þeim verði sinnt af enn meiri krafti.

Það eru margar áskoranir sem blasa við, s.s. aukin samkeppni, hröð tækniþróun og örar breytingar á regluverki. Til að við getum tekist á við þessar áskoranir af krafti er mikilvægt að bankanum takist áfram að laða að sér og halda í öflugt og hæfileikaríkt starfsfólk.

Til þess þarf bankinn að geta boðið samkeppnihæf laun og eftirsóknarvert starfsumhverfi. Auk þess þurfum við að gæta að því að þróa mannauðinn í takti við breytingar á starfsemi bankans og ná fram því besta í okkur hverju og einu til að við getum ávallt veitt sem besta þjónustu.

Mjög góð frammistaða við krefjandi aðstæður

Á aðalfundi bankans árið 2021 voru þrír nýir bankaráðsmenn kjörnir sem aðalmenn í bankaráðinu, þau Elín H. Jónsdóttir, Guðrún Blöndal og Helgi Friðjón Arnarson. Þá var Sigríður Olgeirsdóttir kjörin sem varamaður. Nýju aðalmennirnir í bankaráði komu í stað þeirra Einars Þórs Bjarnasonar, sem setið hafði í bankaráðinu frá 2016, Hersis Sigurgeirssonar, sem sat í bankaráði frá 2016 og fram í nóvember 2020, og Sigríðar Benediktsdóttur, sem setið hafði í bankaráðinu frá 2017. Ég þakka þeim öllum fyrir mjög gott samstarf. Fyrir hönd bankaráðs þakka ég Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra, öðrum stjórnendum og starfsfólki bankans fyrir afar góða frammistöðu við krefjandi aðstæður og gott og árangursríkt samstarf á árinu 2021.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur