Landsbanki nýrra tíma

Frá ársbyrjun 2021 höfum við unnið ötullega eftir stefnu bankans sem ber yfirskriftina Landsbanki nýrra tíma. Kjarni stefnunnar er hugmyndin um gagnkvæmt traust og mannlega sýn á bankaviðskipti.

Ánægðir viðskiptavinir

Við setjum ánægju viðskiptavina í fyrsta sæti, höldum áfram öflugri uppbyggingu tæknimála og framþróun stafrænna lausna og innleiðum árangursdrifnari menningu sem styrkir rekstur og skapar aukið frumkvæði. Okkar markmið er að auðvelda viðskiptavinum lífið með því að gera fjármálin aðgengilegri á sama tíma og við eflum ráðgjöf og fræðslu. Við ætlum að halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu. Það er Landsbanki nýrra tíma!

Þrjár stoðir stefnunnar

Stoðir stefnunnar eru þrjár og í þeim er fjallað um áherslur sem tengjast mismunandi þáttum í rekstri bankans, viðskiptavinum, innviðum og mannauði.

Stefnustoð 1: Ánægðir viðskiptavinir
Stefnustoð 2: Stöðug framför
Stefnustoð 3: Við elskum árangur

Fyrsta stoðin snýst um ánægju viðskiptavina. Þar er áherslan á að einfalda viðskiptavinum lífið og sýna frumkvæði. Það gerum við með því að þróa einfaldar, stöðugt aðgengilegar lausnir og með því að nýta gögn til að veita viðskiptavinum persónulega og faglega ráðgjöf.

Önnur stoðin fjallar um nauðsyn stöðugra framfara. Hún vísar til þess að bankinn starfar í kviku umhverfi og þarf að tileinka sér hagkvæmar leiðir til að aðlagast og ná árangri. Við viljum að starfsemi bankans verði stöðugt snjallari og gögn bankans betur nýtt, m.a. til að bjóða upp á sérsniðna þjónustu. Reksturinn er traustur og öruggur og sérstök áhersla lögð á upplýsingaöryggi. Þá ætlum við vera í fremstu röð hvað varðar sjálfbærni.

Þriðja stoðin fjallar um árangur viðskiptavina og starfsfólks. Við lítum svo á að árangur viðskiptavina sé okkar árangur og því sé mikilvægt að leggja áherslu á árangursdrifna menningu. Við leggjum jafnframt áherslu á að byggja upp vinnustað framtíðarinnar. Fjölbreyttur og sveigjanlegur vinnustaður hvetur starfsfólk til að vinna saman og þróa hugmyndir yfir í lausnir.

Traustur banki

Traust er lykilþáttur í starfsemi okkar, hvort sem horft er til samskipta við viðskiptavini, samstarfsfólk eða gagnvart rekstri bankans og starfsemi. Viðskiptavinir eiga að geta treyst því að við séum til staðar og að rekstur bankans sé í öruggum höndum.

Stoðir nýrra tíma

Skýr markmið til næstu tíu ára

Í stefnumótuninni voru sett metnaðarfull lykilmarkmið til ársins 2030. Árangur bankans verður metinn reglulega á tímabilinu og skerpt á áherslum eða þeim breytt eins og þörf krefur. Unnið verður eftir mælanlegum markmiðum til að hægt sé að meta árangurinn af nýrri stefnu bankans.

Lykilmarkmiðin snúast um viðskiptavinir geti afgreitt sig sjálfir, alltaf, hvar og hvenær sem er. Við ætlum líka að auka þjónustutekjur með því að bjóða upp á nýjar, virðisaukandi lausnir fyrir viðskiptavini bankans. Stefnan miðar að því að Landsbankinn verði leiðandi banka á Norðurlöndunum þegar horft er til fjármálaþjónustu framtíðarinnar.

Vel gengur að ná lykilmarkmiðum

Við fylgjumst náið með hvernig okkur gengur að innleiða stefnuna og ná þeim lykilmarkmiðum sem við höfum sett okkur. Árangurinn hefur verið góður og við höfum náð flestum markmiðum okkar á tilsettum tíma eða fyrr. Þetta á m.a. við um að byggja meira á gögnum bankans til að veita betri þjónustu, gera viðskiptavinum kleift að ljúka sem flestum aðgerðum í sjálfsafgreiðslu, auka þjónustutekjur og ná framúrskarandi árangri í sjálfbærnimálum. Við sjáum líka að ánægja viðskiptavina er mikil og það gefur okkur byr undir báða vængi. Við ætlum að gera stöðugt betur og halda áfram að ná árangri fyrir bankann og fyrir viðskiptavini.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur