Áhættustjórnun

Áhætta er samofin allri starfsemi bankans. Öflug og traust áhættustjórnun er því lykilþáttur í rekstri bankans en áhættustjórnun felur í sér greiningu, mat og stýringu á öllum áhættuþáttum.

Landslagsmynd

Óvissa af völdum heimsfaraldursins hefur sett mark sitt á starfsemina síðastliðin misseri en engu að síður sýna helstu áhættumælikvarðar að staða bankans er afar traust, hvort sem litið er til arðsemi eða áhættu. Þrátt fyrir krefjandi áskoranir vegna áhrifa faraldursins hefur aðgerðastjórn bankans, á grundvelli viðbúnaðaráætlana og fyrri reynslu, gengið vel og starfsemi og þjónusta bankans verið að mestu hnökralaus.

Áhættumælingar og mat bankans á mikilvægustu áhættuþáttum benda almennt til jákvæðra og stöðugra horfa. Vanskil eru í sögulegu lágmarki, eiginfjárstaða bankans er góð, lausafjárstaða sterk og allir áhættumælikvarðar eru innan áhættuvilja.

Sem fyrr er útlánaáhætta umfangsmesta áhætta bankans. Bókfært virði útlána jókst um 114 ma.kr. á liðnu ári sem má rekja til íbúðalána einstaklinga. Mælikvarðar útlánaáhættu hafa þróast á jákvæðan hátt á árinu sem birtist í lækkandi líkum á vanefndum og sögulega lágum vanskilahlutföllum. Áfram er nokkur óvissa varðandi útlán sem eru með greiðslufresti vegna áhrifa heimsfaraldursins, en í árslok nam bókfært virði þeirra lána alls 74 mö.kr.

Á árinu 2021 var bókfærð rúmlega 7 ma.kr. tekjufærsla vegna bakfærslu virðisrýrnunar samanborið við um 12 ma.kr. gjaldfærslu árið áður. Þetta skýrist af því að væntingar um aukið útlánatap í kjölfar áhrifa Covid-19 hafa að mjög litlu leyti gengið eftir og horfur eru á að útlánatap verði umfangsminna en áður var gert ráð fyrir. Útlán í áhættustigi 3 hafa þannig dregist saman á árinu sem skýrist helst af lágu vanefndahlutfalli útlána á árinu 2021. Útlán í áhættustigi 2 hafa einnig lækkað í takt við bætta áhættustöðu lána.

Í árslok 2021 var eiginfjárhlutfall bankans 26,6%, en eiginfjárkrafa bankans er 18,8%. Lausafjárstaða bankans í heild, í erlendum myntum og í einstökum myntum, er áfram sterk og vel umfram lögbundin mörk. Þannig var hlutfall heildarlausafjárþekju 178% í árslok, 120% í íslenskum krónum og 555% í erlendum myntum. Þá er heildarmarkaðsáhætta áfram hófleg og vel innan áhættuvilja.

Lagt er mat á áhættuþætti í rekstri bankans með ýmsum mælikvörðum, eftir umfangi þeirra og eðli, og mælikvarðarnir mynda grunn fyrir áhættumörk, greiningu áhættuþátta, upplýsingagjöf og stjórnun áhættu. Sameiginleg mæling allra áhættuþátta er innra mat bankans á eiginfjárþörf (e. economic capital) sem ætlað er að mæta óvæntu tapi í rekstri bankans.

Heildareiginfjárþörf var 104 ma.kr. í árslok 2021 og lækkaði um 5,5 ma.kr. á milli ára. Lækkunin felst aðallega í lægri eiginfjárþörf vegna útlánaáhættu í takt við bætta áhættustöðu útlána. Áhættugrunnur bankans hækkaði í takt við útlánavöxt á árinu og var hlutfall eiginfjárþarfar af áhættugrunni 9,1% í lok árs 2021, samanborið við 9,8% árið áður.

Áhættustefna Landsbankans

Markmið áhættustefnu Landsbankans er að skapa umgjörð um áhættustjórnun og áhættuvilja bankans en þessir þættir mynda undirstöðu langtímaarðsemi og stöðugleika. Stefna bankans tekur líka til innleiðingar á áhættumenningu, áhættureglna og stjórnskipulags sem skilgreinir heimildir til ákvarðana og áhættutöku, eftirfylgni og eftirlit bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans. Allir mikilvægustu áhættuþættir í starfsemi bankans eru skilgreindir, metnir og mældir, hvort sem þeir eru fjárhagslegir eða ófjárhagslegir. Áhættuþættir bankans eru útlánaáhætta, markaðsáhætta, lausafjáráhætta, rekstraráhætta, viðskiptaáhætta, lagaleg áhætta, orðsporsáhætta, háttsemisáhætta, hlítingaráhætta, upplýsingaöryggisáhætta, gagnaáhætta, líkanaáhætta og loftslagsáhætta.

Bankaráð hefur samþykkt áhættuvilja sem endurspeglar áhættustefnu bankans og er stjórntæki til að stýra áhættutöku auk þess að skilgreina markmið um heildaráhættu í starfsemi bankans. Áhættuviljinn er endurskoðaður að lágmarki árlega.

Greinum rekstraráhættu í starfi bankans

„Í Rekstraráhættudeild, sem er hluti af sviðinu Áhættustýringu, aðstoðum við starfsfólk bankans við að greina þá rekstraráhættu sem felst í starfseminni og hvernig best er að takast á við hana. Rekstraráhætta er „yngst“ þeirra áhættuþátta sem bankar standa frammi fyrir. Það sem aðskilur rekstraráhættu frá öðrum áhættuþáttum eins og útlánaáhættu, markaðsáhættu og lausafjáráhættu, er að rekstraráhætta á uppruna sinn í innra starfi bankans og felur í sér alla þá ófjárhagslega áhættu sem hinir klassísku áhættuþættir taka ekki tillit til. Þegar vel tekst til erum við hluti af umbótastarfi bankans.

Virkt innra eftirlit

Virkt innra eftirlit er einn af hornsteinum öflugrar áhættustjórnunar og er ætlað að stuðla að því að bankinn starfi í samræmi við áhættustefnu og áhættuvilja.

Innra eftirlit er ferli sem er mótað af stjórnendum og starfsfólki bankans og felur í sér allar þær aðgerðir sem gripið er til með það að markmiði að styðja við, stjórna, takmarka eða vakta tiltekna starfsemi og auka þannig líkur á að bankinn nái settum markmiðum.

Þá leggur Landsbankinn áherslu á góð og uppbyggjandi samskipti við eftirlitsaðila og rétta upplýsingagjöf til þeirra.

Áhættumælikvarðar í áhættuvilja Landsbankans

Megináhættumælikvarðar bankans koma fram hér að neðan en auk þeirra leggur bankinn mat á og mælir ýmsa aðra áhættuþætti sem styðja við áhættustjórnun og ákvörðunartöku.

Áhættuþáttur    Mæling
Útlánaáhætta Vænt tap
Meðallíkur á vanefndum
Samþjöppunaráhætta Stærsta áhættuskuldbinding (hlutfall af eigin fé þáttar 1)
Stórar áhættuskuldbindingar alls (hlutfall af eigin fé þáttar 1)
Markaðsáhætta Heildarmarkaðsáhætta
Áhættuþáttur Mæling
Lausafjár- og fjármögnunaráhætta Lausafjárþekja í krónum
Lausafjárþekja í erlendum myntum
Lausafjárþekja alls
Fjármögnunarþekja í erlendum myntum
Fjármögnunarþekja alls
Eiginfjáráhætta Eiginfjárhlutfall alls
Rekstraráhætta Raunbreyting áhættugrunns
Arðsemi Arðsemi eigin fjár eftir skatta

Ítarlegri upplýsingar í áhættuskýrslu

Landsbankinn gefur út áhættuskýrslu þar sem gerð er ítarleg grein fyrir öllum áhættuþáttum bankans og þeim aðferðum sem beitt er við mat á áhættu.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur