Áhættustýring aðstoðar bankann við að leggja mat á og stjórna þeirri áhættu sem við stöndum frammi fyrir í rekstrinum og bera kennsl á hugsanleg vandamál áður en þau raungerast. Í því felst að greina, mæla og þróa mælikvarða á áhættuþætti í rekstri bankans og sinna eftirliti með þeim.
Við erum í miklu samstarfi við aðrar starfseiningar bankans sem gerir starfið fjölbreytt og skemmtilegt. Við vinnum í raun með öllum deildum bankans. Mest er þó er samstarfið við Regluvörslu og Upplýsingatækni (UT). Rekstraráhættudeild leiðir vinnu vegna vottunar bankans samkvæmt upplýsingaöryggisstaðlinum ISO 27001. Í upplýsingaöryggi eru hlutirnir í sífelldri þróun. Það er áskorun sem er skemmtilegt að takast á við. Landsbankinn hefur verið vottaður samkvæmt ISO 27001 frá árinu 2007 og við erum stolt af því.
Upplýsingaöryggi hefur verið í forgrunni hjá okkur undanfarin ár. Það er mikill metnaður hjá bankanum til að standa sig vel en um leið fara kröfurnar sem eru gerðar til okkar vaxandi. Það er áskorun en jafnframt tækifæri að halda okkur í fremstu röð í upplýsingaöryggismálum hér á landi. Ég held að við séum einstaklega heppin með sérfræðinga okkar hjá UT sem leiða þá vinnu fyrir okkur. Tækifærin hjá Rekstraráhættu liggja í því að styðja bankann í því að verða gagnadrifið fyrirtæki og nýta upplýsingatæknina ennþá betur við okkar vinnu.
Það er mikil og viðvarandi aukning á kröfum í ytra regluverki og áhugi eftirlitsaðila á rekstraráhættu hefur aukist til muna. Þar kemur upplýsingaöryggið sterkast inn en líka hlutir eins og persónuvernd sem tengist upplýsingaöryggi auðvitað heilmikið. Annað sem er að koma nýtt inn í rekstraráhættu þessi misserin er UFS-áhætta, það er segja áhætta sem tengist umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Bankinn hefur markað sér sjálfbærnistefnu og við erum í samstarfi við sjálfbærnihópinn hjá Samfélagi að þróa hvernig við nálgumst UFS-áhættuna í framtíðinni.“