Nýjar lausnir til að einfalda lífið

Við leggjum okkur fram við að einfalda viðskiptavinum lífið. Á árinu 2021 kynntum við ýmsar nýjar lausnir sem gera viðskiptavinum okkar kleift að klára sín mál á auðveldan hátt í appinu og netbankanum.

Kona í farsíma

Bankaþjónusta hvar sem þú ert

Viðskiptavinir okkar eiga að geta sinnt öllum sínum bankaviðskiptum hvar og hvenær sem er. Við leggjum áherslu á að nýta gögn bankans sem best til að bjóða upp á þjónustu sem hentar viðskiptavinum. Með því að hagnýta gögn og upplýsingatækni getum við boðið betri og skjótari þjónustu.

Festa vexti í appi

Í júlí hófum við að bjóða viðskiptavinum sem eru með íbúðalán á breytilegum óverðtryggðum vöxtum að sækja um að festa vextina með einföldum hætti í appinu. Ef þú ert með íbúðalán með breytilegum vöxtum þarftu bara að ýta á einn hnapp í appinu til að sækja um að festa vextina. Þessari lausn var vel tekið.

Konur í hjólaferð

Vinsælt að spara í appi

Landsbankaappið er í sífelldri þróun og við leggjum megináherslu á að nýjar þjónustuleiðir séu ávallt aðgengilegar í appinu. Á vormánuðum buðum við upp á nýja sparnaðarlausn sem kallast Spara í appi. Þetta er skemmtileg leið fyrir viðskiptavini til að setja sér markmið og velja milli mismunandi leiða til þess að leggja fyrir. Það er hægt að bjóða til dæmis fjölskyldu eða vinum að taka þátt í að safna og fylgjast með hvernig gengur. Þessi lausn sló í gegn og á árinu voru um 8.600 reikningar stofnaðir í appinu og ríflega 600 hópar eru að spara saman fyrir ákveðnu markmiði. Flestir völdu að spara fyrir ferðalögum.

Ýmsar fleiri sparnaðarleiðir eru í boði í appinu og netbankanum, s.s. að stilla millifærslur fyrir reglubundinn sparnað og stilla kreditkort þannig að ákveðin upphæð er lögð fyrir í hvert sinn sem kortið er notað.

Einfaldari vasapeningar

Viðskiptavinir okkar eru á öllum aldri, þeir yngstu nýfæddir og þeir elstu yfir 100 ára gamlir. Eitt af því sem við gerðum á árinu til að einfalda viðskiptavinum okkar lífið var að bjóða upp á nýtt greiðslukort fyrir 9-18 ára. Kortið ber heitið Vasapeningar og er fyrirframgreitt greiðslukort. Barnið er handhafi kortsins en foreldrar eða forráðamenn eru eigendur þess og hafa þannig góða yfirsýn yfir notkun á kortinu í appinu og netbankanum. Barnið á auðvelt með að sjá stöðuna á kortinu með því að nota QR-kóða á bakhlið kortsins. Með kortinu er einfalt og öruggt fyrir foreldra og forráðamenn að veita börnunum aðgang að vasapeningum eða öðrum fjármunum.

Strákar á hjólabrettum

Öll kort á einum stað í appinu

Meðal annarra breytinga í appinu var að við einfölduðum framsetningu á kortaupplýsingum. Nú er hægt að skoða öll kort á sama stað, þ.e.a.s. bæði eigin kort og t.d. Vasapeningakort barnanna, ef það á við. Hið sama gildir um kortaupplýsingar sambúðarfólks sem hefur valið að vera með sameiginlega kortasýn. Þar er einnig hægt að skoða stöðu á Aukakrónukorti og gjafakortum, en viðskiptavinir sem eiga Gjafakort Landsbankans geta skráð það inn í appið, fylgst með stöðunni og bætt því í Kortaappið eða Apple Pay og greitt með því á netinu. Þá er enn einfaldara að sækja um nýtt kort en áður.

Öll dagleg bankaviðskipti í appinu og netbankanum

Viðskiptavinir okkar hafa tekið appinu fagnandi og fjöldi notenda hefur aukist jafnt og þétt. Á sama tíma hefur innskráningum í netbanka heldur fækkað, sem og aðgerðum sem starfsfólk framkvæmir fyrir viðskiptavini í útibúum. Öll helstu bankaviðskipti fara fram í gegnum stafrænar lausnir og næstum allir viðskiptavinir okkar nota appið eða netbankann til þess að millifæra og greiða reikninga. Sumir nýta sér reglulegar millifærslur fyrir sparnað og aðrir nýta sér til dæmis að spara með korti þannig að ákveðin upphæð er lögð fyrir í hvert sinn sem kortið er notað.

Lán í appinu

Viðskiptavinum okkar stendur til boða að greiða inn á lánin sín í appinu eða netbankanum og þar geta þeir einnig sótt um skammtímalán, eins og Aukalán eða yfirdrátt. Viðskiptavinir geta líka sjálfir breytt yfirdráttarheimildinni, bæði hækkað og lækkað hana innan ákveðins lánaramma. Sé heimild lánarammans ekki næg er hægt að óska tímabundið eftir hærri heimild til þess að klára málið, án þess að gera sér ferð í bankann.

Snertilausum greiðslum alltaf að fjölga

Frá árinu 2018 hefur viðskiptavinum okkar staðið til boða að tengja kortin sín við Kortaappið (Android-stýrikerfi) og síðar Apple Pay (iOS-stýrikerfi) og nota þannig símann til að greiða fyrir vörur og þjónustu. Einnig er hægt að tengja kort við Garmin og FitBit-úr og greiða með þeim eins og Apple-úrum. Notkun á snertilausum greiðslum fer sífellt vaxandi og nú fara 34% af öllum kortagreiðslum fram með þeim hætti. Almennt eru snertilausar greiðslur með snjalltækjum taldar öruggasti greiðslumáti sem völ er á því með notkun þeirra er ekki þörf á að slá inn PIN-númer eða nota aðrar auðkenningarleiðir sem eru viðkvæmari fyrir svikatilraunum. Við mælum því eindregið með notkun snertilausra greiðslna með símum eða snjallúrum.

Hlutfall snertilausra greiðslna

2019
12%
2020
23%
2021
34%

Rafrænar undirritanir einfalda málin

Við höfum lagt áherslu á að bjóða rafræna undirritun á sem flest skjöl. Frá árinu 2017 hefur fjöldi rafrænna undirritana ríflega sextánfaldast og á árinu 2021 voru 92.000 skjöl undirrituð með þeim hætti. Rafrænar undirritanir flýta fyrir, draga úr fyrirhöfn og fækka ferðum í útibú. Gott dæmi um kosti þeirra er að nú er hægt að ljúka greiðslumati vegna íbúðaláns með rafrænum hætti á vef bankans en í desember 2021 voru 80% allra greiðslumata gerð með rafrænni undirritun.

Tækninni fleygir fram og margt spennandi í pípunum

„Það er sérstaklega skemmtilegt að starfa í upplýsingatækni í bönkunum þessi misserin! Það eru gífurlegar breytingar á því hvernig við veitum okkar þjónustu þar sem tækninni fleygir fram og viðskiptavinir vilja að sjálfsögðu fá eins mikla og góða þjónustu í sjálfsafgreiðslu og hægt er. Þetta leiðir af sér ógrynni góðra hugbúnaðarverkefna og getur verið snúið að forgangsraða og velja vænlegustu verkefnin. Þessi nýju verkefni keyrum við eins hratt og vel og við getum í svokölluðum sellum, þar sem blandaður hópur sérfræðinga er settur saman í verkefnahóp. Sellan situr síðan saman og ber ábyrgð á því að klára verkefnið. Í sellunni eru þá bæði forritarar, sérfræðingar, verkefnastjóri og lögfræðingur – í rauninni allt sem þarf til að hægt sé að klára verkefnið.

Fjöldi nýjunga og nýrra lausna á árinu 2021

Við kynntum margar nýjungar og umbætur á netbankanum og appinu sem gerðu bankaviðskipti einstaklinga og fyrirtækja enn auðveldari og einfaldari. Við kynntum einnig margar nýjungar í þjónustu á borð við sjálfbæran vaxtareikning, eignadreifingarsjóð þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni og við lengdum þann tíma sem fólk getur bókað tíma í ráðgjöf til kl. 18. Myndin hér fyrir neðan sýnir hluta þeirra nýjunga sem voru kynntar á árinu 2021 en upptalningin er alls ekki tæmandi.

Snjallari starfsemi - skýringarmynd

Nýskráning í viðskipti á innan við 90 sekúndum

Við erum í fararbroddi í stafrænni fyrirtækjaþjónustu og aldrei hafa fleiri fyrirtæki skráð sig í viðskipti við bankann en árið 2021. Frá árslokum 2020 hafa fyrirtæki skráð sig á eigin spýtur í viðskipti hjá bankanum, án aðkomu starfsfólks bankans. Þetta gera þau á vefnum eða í appi bankans og framkvæma skráninguna á íslensku, ensku eða pólsku. Um er að ræða sjálfsafgreiðslulausn sem hentar stórum og smáum fyrirtækjum á svo til öllum félagaformum, þar með talið einstaklingum með rekstur á eigin kennitölu.

Viðskiptavinir stofna til viðskipta í 4-5 skrefum og í um 80% tilfella er því lokið á innan við 90 sekúndum. Meðaltalið var áður 45 mínútur í útibúi.

Að lokinni nýskráningu fær félagið aðgang að netbanka, B2B-tengingu, bankareikning, debetkort og innkaupakort (ef kort eru valin). Með öðrum orðum fær fyrirtækið allt sem til þarf til að sinna öllum helstu daglegu bankaviðskiptum og getur strax hafið innheimtu og byrjað að greiða reikninga. Flest félögin byrja strax að stunda viðskipti í netbankanum eða appinu í kjölfar nýskráningarinnar og mörg bæta fljótlega við notendum eða fjölga bankareikningum.

Þessi sjálfsafgreiðsluþjónusta varð til þess að metfjöldi fyrirtækja kom í viðskipti við Landsbankann á árinu, eða samtals tæplega 2.500 félög og einyrkjar, þar af um 90% í gegnum sjálfsafgreiðslu. Árið 2021 voru ný fyrirtæki líklegri til að velja Landsbankann sem viðskiptabanka heldur en nokkru sinni sl. 10 ár.

Fólk í tölvu

Appið í mikilli sókn

Landsbankaappið eykur skilvirkni og veitir yfirsýn yfir fjármál fyrirtækisins og tengdra félaga. Móðurfélög geta líka fengið aðgang að gögnum og aðgerðum dótturfélaga án þess að skipt sé á milli aðganga. Innskráning er auðveld en m.a. má nota fingrafar í stað notendanafns og lykilorðs.

Samtals voru innskráningar í netbanka fyrirtækja og appið á árinu 2021 um 400.000. Þar af voru tæp 20% innskráninganna í appið og jókst notkun þess umtalsvert. Við sjáum fyrir okkur að appið muni nýtast litlum og meðalstórum fyrirtækjum hvað best. Fyrir mörg meðalstór og stærri fyrirtæki mun notkun á netbanka fyrirtækja enn um sinn verða algengari þar sem fjárhagsdeildir eða fjármálasvið fyrirtækja vinna oft á tíðum mikið þar inni og notast við ýmis bankayfirlit, framkvæma greiðslur og fleira í þeim dúr.

Fyrirtæki nota appið að meðaltali 60% utan afgreiðslutíma útibúa og 40% á afgreiðslutíma en hlutfallið snýst næstum því við þegar netbankinn er annars vegar og þá nota tæp 43% fyrirtækja hann utan afgreiðslutíma en 57% á afgreiðslutíma.

Í appinu eru aðgerðir einfaldar og fljótlegt að skipta á milli fyrirtækja- og einstaklingsviðskipta. Þú færir þig á milli félaga í appinu án frekari út- og innskráningar til að skoða gögn og framkvæma aðgerðir. Móðurfélög geta líka fengið aðgang að gögnum og aðgerðum dótturfélaga án þess að skipt sé um aðgang. Á augnabliki getur þú fært þig í annað félag til að stunda innheimtu í því félagi – það verður ekki einfaldara!

Í appinu er meðal annars hægt að:

Stofna til viðskipta
Stofna bankareikninga, debetkort, kreditkort og innkaupakort
Stofna stakar og mánaðarlegar kröfur
Sjá algengustu og eftirlætis viðtakendur
Fá haldgóða yfirsýn yfir stöðu innheimtumála
Sjá og vinna með ógreidda reikninga, bankareikninga, kort og rafræn skjöl
Stofna innheimtuferla, breyta kröfustillingum og veita greiðslufresti
Fá ítarleg yfirlit lána og annarra skuldbindinga
Sjá stöðu og þróun á verðbréfasafni og helstu markaðsupplýsingar
Öryggiskerfið notar áhættugreiningu sem eykur þægindi við notkun

Litlu hlutirnir skipta líka máli

Í byrjun árs var Landsbankinn fyrstu íslenskra banka til að leyfa viðskiptavinum sínum að breyta leyninúmeri bankareikninga í sjálfsafgreiðslu í netbankanum, eitthvað sem áður var eingöngu hægt í útibúi. Við settum líka hnapp inn í netbanka fyrirtækja sem býður viðskiptavinum upp á leiðsögn um netbankann til þess að auðvelda þeim að finna réttar upplýsingar og þjónustu þar inni. Enn fremur voru settar inn flýtileiðir til að þess m.a. bæta við netbankanotendum, bankareikningum og kortum.

Kreditkort í sjálfsafgreiðslu og hægt að greiða með þeim snertilaust

Á árinu var fyrirtækjum gert mögulegt að sækja um kreditkort í sjálfsafgreiðslu í netbankanum og appi. Þetta einfaldar hlutina til muna fyrir fyrirtæki og í kjölfarið á þessari nýjung og í anda sjálfbærnistefnu Landsbankans hættum við útgáfu PIN-bréfa til korthafa. Þess í stað fá allir handhafar kreditkorta fyrirtækja nú netbankaaðgang sem takmarkaður er við sýn á kort viðkomandi þar er hægt að nálgast PIN-númer kortsins. Þessi nýjung gerir það einnig að verkum að handhafar viðskiptakorta geta nú sent kortið úr appinu í rafrænar kortalausnir og greitt með símanum eða úrinu.

Efnisprufur

Þægilegri og fljótlegri innheimta

Við gerðum mikið til að auka sjálfsafgreiðslumöguleika í innheimtuþjónustu á árinu og fjölgaði kröfuútgefendum um 10%. Viðskiptavinir geta nú stofnað innheimtuþjónustu í netbankanum og appinu og hafið innheimtu strax. Netbankinn og appið veita viðskiptavinum haldgóða yfirsýn yfir stöðu innheimtumála, þeir geta breytt kröfustillingum og veitt greiðslufresti. Líkt og netbankinn veitir appið yfirsýn yfir útgefnar kröfur og innheimtuárangur. Við tryggðum að fljótlegt væri að færa sig á milli félaga í appinu til að skoða og stýra innheimtu hjá þeim líka. Möguleikarnir eru fjölmargir. Undir lok árs bættum við stofnun reglulegra krafna í appið og er Landsbankinn fyrstur íslensku bankanna til að veita slíka þjónustu. Viðskiptavinir geta nú sjálfir sett upp mánaðarlega innheimtu á kröfum sem hentar litlum og meðalstórum fyrirtækjum og einstaklingum í rekstri sérstaklega vel. Í janúar 2022 kom lausnin svo jafnframt út í netbanka fyrirtækja.

Nánast allir virkir viðskiptavinir með gilda áreiðanleikakönnun

Á árinu svöruðu 74% viðskiptavina áreiðanleikakönnun fyrirtækja í netbanka, samanborið við 62% árið áður.  Nú er svo komið að nánast allir virkir viðskiptavinir hafa gilda áreiðanleikakönnun hjá Landsbankanum og geta uppfært hana í netbankanum.

Aðgerðir í sjálfsafgreiðslu2021
Innlendar greiðslur95,2%
Erlendar greiðslur95,7%
Innheimta krafna99,4%
Stofnun bankareikninga74,9%
Stofnun kreditkorta66,4%
Undirritun samninga74,7%

Hagnýtum gögn til að bjóða betri þjónustu

Stefna Landsbankans er að verða gagnadrifinn banki til að geta boðið snjallari og betri þjónustu og stuðla um leið að betri rekstri. Undanfarin ár höfum við unnið markvisst að þessu verkefni og náð miklum árangri sem birtist m.a. í aukinni sjálfvirknivæðingu og skilvirkni í starfsemi og þjónustu bankans.

Gögn sem hægt er að treysta

Lykilatriði við hagnýtingu gagna er að tryggja að gögnin séu rétt og fullnægjandi. Fyrstu skrefin fólust því í að fara rækilega yfir öll gögn bankans sem snúa að áhættu. Þetta var mikilvægur þáttur í að bæta áhættustýringu. Í kjölfarið gátum við svo einbeitt okkur að rekstrargögnum sem við gátum notað til að hagræða og einfalda reksturinn. Samhliða unnum við að því að gera gögnin áreiðanlegri, staðlaðri og aðgengilegri fyrir starfsfólkið sem fékk um leið tæki, tól og þjálfun til að vinna með og greina gögnin. Eftir þessa miklu uppbyggingu í okkar innra starfi var næsta skref að hagnýta gögnin til að bæta þjónustu við viðskiptavini og einfalda þeim lífið.

Aðgengileg gagnagátt fyrir starfsfólk

Á árinu 2021 urðu þau tímamót að við opnuðum gagnagátt sem gerir starfsfólki kleift að draga saman valin gögn á einfaldan hátt, bæði innan og utan bankans. Í gagnagáttinni eru gögn sem liggja í mismunandi grunnum gerð sýnileg á einum stað en ekki færð til eða afrituð. Þessi sýndargagnagrunnur gefur okkur möguleika á að hagnýta betur gögn bankans sem sum hver voru óaðgengileg áður eða þurfti mikla sérfræðiþekkingu til að nálgast.

Aðgengi að gáttinni er á þremur stigum. Fyrsta stigið er í raun stöðluð skýrslugjöf. Á öðru stigi er sjálfsafgreiðslusvæði þar sem hægt er að útbúa greiningar og skýrslur án mikillar eða djúprar þekkingar. Þriðja stigið er síðan fyrst og fremst fyrir sérfræðinga sem geta kallað eftir frekari gögnum úr gagnagrunnum bankans.

Það er á stigi tvö sem stærsta umbreytingin hefur legið síðastliðin þrjú ár. Þar er opinn aðgangur að ópersónugreinanlegum gögnum meginreglan, sem þýðir að allt starfsfólk bankans hefur aðgang og getur skoðað og borið saman gögn með einföldum hætti. Sem dæmi um hagnýtingu á gagnagáttinni eru rauntímagreiningar sem gera okkur kleift að fylgjast með viðtöku nýrra lausna, sem á árinu 2021 voru m.a. Vasapeningar, Sparað í appi og fleira. Skilvirkni við söfnun og miðlun upplýsinga og öll yfirsýn innan bankans hefur stóraukist og daglegar mælingar hafa ýtt undir árangursdrifna menningu.

Blýantur, og sími á borði

Notum gögn til að forgangsraða

Þessi aukna notkun á gögnum hefur valdið miklum breytingum á því hvernig við nálgumst viðskiptavini og hagnýtum upplýsingar til að veita persónulega og faglega ráðgjöf. Við höfum nú betri yfirsýn, eigum auðveldara með að koma auga á ný tækifæri og sjá hvernig við getum uppfyllt þarfir og væntingar viðskiptavina. Ákvarðanir um framboð á nýrri þjónustu, forgangsröðun verkefna, vinna við nýjar lausnir og fleira byggir nú í auknum mæli á enn traustari gögnum sem auðvelt er að nálgast. Þjónustan hefur aukist og batnað enn frekar sem hefur leitt til meiri ánægju viðskiptavina.

Í fremstu röð

Af samtölum okkar við bæði erlenda og innlenda ráðgjafa er ljóst að staða bankans er einstök á Norðurlöndum og víðar í Evrópu hvað varðar innleiðingu á sýndargögnum og gagnagátt. Þar spilar inn stærð bankans og þverfaglegt samstarf sem hefur auðveldað okkur ferðalagið. Bankinn er á réttri gagnabraut og framundan sjáum við fjölmörg tækifæri til að bæta þjónustuna enn frekar og stuðla að enn betri rekstri.

Aukinn viðbúnaður vegna netárása

Á árinu 2021 varð mikið tjón af völdum netárása og netglæpa á heimsvísu, sérstaklega vegna árása sem fólust í að taka gögn fyrirtækja í gíslingu. Slíkar árásir sjöfölduðust á milli ára, samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Netárásir hafa verið skilgreindar meðal fimm hættulegustu tegunda afbrota í heimi. Vonin um gróða er mikil og afar erfitt er að hafa uppi á netglæpamönnunum og sanna á þá afbrot.

Til að styrkja netvarnir lögðum við á árinu 2021 helst áherslu á sjálfvirknivæðingu og innra eftirlit sem felst m.a. í getunni til að greina og koma í veg fyrir tjón þegar tölvuþrjótar eru komnir inn fyrir ytri varnir bankans. Þetta er í takt við stefnu okkar um lagskiptar netvarnir. Jafnframt var mikil áhersla lögð á fræðslu til starfsfólks og viðskiptavina því mannlegi þátturinn er yfirleitt veikasti hlekkurinn í vörnum gegn netglæpum.

Sendu SMS í nafni íslenskra fyrirtækja

Vefveiðar (e. phishing) eru ein hættulegusta ógnin í stafrænum heimi og beinast bæði að einstaklingum og fyrirtækjum. Samkvæmt rannsókn bandaríska fjarskiptafyrirtækisins Verizon frá árinu 2021 voru vefveiðar notaðar í um 36% netárása. Mjög kvað að þessum árásum á Íslandi á árinu 2021, sérstaklega á seinni hluta ársins, þegar send voru SMS í nafni nokkurra þekktra fyrirtækja, þ.m.t. Landsbankans. Í tilviki bankans sendu glæpamennirnir fjölda fólks SMS sem innihéldu hlekk yfir á eftirlíkingu af innskráningarsíðu netbankans. Í skilaboðunum var fólk í sumum tilvikum beðið um að staðfesta eða breyta upplýsingum með því að skrá sig inn í netbankann, þ.e. eftirlíkingu af honum. Ef fólk féll fyrir svikunum og sló inn notendanafn og leyniorð komust þrjótarnir einu skref nær því að komast inn í netbankann, þó ekki sé þar með sjálfgefið að komast alla leið. Við brugðumst við með ýmsum hætti, m.a. með því að fá aðstoð fjarskiptafyrirtækja við að stöðva sendingarnar og brugðust þau mjög skjótt við. Við gerðum einnig tilteknar breytingar á okkar eigin kerfum og síðast en ekki síst ítrekuðum við viðvaranir til viðskiptavina til að vekja athygli á vandanum.

Tölva, dagbók og lyklar

18 milljón tölvupóstar til bankans

Netglæpamenn senda gríðarlegt magn af skilaboðum og tölvupóstum í þeirri von að einhver falli í gildruna, hvort sem er í gegnum vefveiðar, með því að hlaða niður vírus eða annað. Landsbankinn einn og sér fékk um 18 milljónir tölvupósta af þessu tagi á árinu 2021 eða ríflega 49.000 á dag að meðaltali.

Á árinu 2021 fjölgaði netárásum á lítil og meðalstór fyrirtæki töluvert. Gagnagíslataka er ein stærsta ógnin en þá krefjast þrjótarnir lausnargjalds fyrir gögn fyrirtækja. Þó lausnargjaldið sé greitt er engin vissa um að gögnin skili sér. Dæmi eru um alvarlegar afleiðingar af slíkum árásum bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar.

Eitt þúsund tilkynningar um tilraunir til samskiptasvika

Svokölluð samskiptasvik (e. social engineering) er fjölbreyttur og stór brotaflokkur. Undir hann falla m.a. fjárfestingarsvindl þar sem fólki er talið trú um að það sé að kaupa hlutabréf eða rafmyntir eins og bitcoin. Önnur tegund samskiptasvika eru ástarsvik  sem við höfum fjallað töluvert um. Á árinu 2021 fengum við um eitt þúsund tilkynningar eða símtöl frá viðskiptavinum um tilraun til einhvers konar samskiptasvika. Eina leiðin til að verjast brotum af þessu tagi er umræða og fræðsla um netöryggi.

Á undanförnum árum höfum við birt fjölda greina og myndbanda með fræðsluefni um netöryggi og haldið fræðslufundi fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Markmið okkar er að stuðla að aukinni vitund um og þekkingu á netglæpum. Þegar mikið er um netárásir er hætt við að fréttir af þeim endi sem bábilja en því miður þá eru aðferðir netglæpamanna sífellt að taka breytingum. Það skiptir því öllu máli að vera á tánum og sofna aldrei á verðinum.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur