Eitt af því sem nánast öll fjármálafyrirtæki í Evrópu hafa legið yfir síðustu árin, og er stóra verkefnið mitt núna, er innleiðing á nýrri reglugerð frá Evrópusambandinu sem nefnist PSD2. Tilgangurinn með henni er að auka öryggi í netgreiðslum og leyfa öðrum en bönkum að fá aðgang að bankareikningum viðskiptavina, að sjálfsögðu aðeins með samþykki umræddra viðskiptavina! Þetta þýðir að við munum opna á sjálfsafgreiðslu með svokölluðum forritaskilsþjónustum (e. API) svo þjónustuaðilar geti boðið viðskiptavinum að framkvæma millifærslur og skoða bankareikningana í sínu eigin appi. Það er gert með því að láta appið hafa samskipti við bankakerfið í gegnum forritaskilin með öruggum hætti. Það er líka verið að gera kröfur um aukið öryggi í greiðslum og munu viðskiptavinir verða varir við ýmsar breytingar á árinu svo sem á því hvernig innskráning er framkvæmd og greiðsla staðfest.
Reiknistofa bankanna (RB) hefur undanfarin ár verið að innleiða Sopra-kerfið sem er stórt og mikið verkefni sem allir bankar hér á landi hafa tekið þátt í, hver á sínum tíma. Þetta er klárlega stærsta verkefnið sem ég hef tekið þátt í en Landsbankinn ruddi brautina og var fyrstur í loftið haustið 2017. Nú stefnir í að síðustu aðilarnir taki upp kerfið um miðjan febrúar. Þá verður loksins hægt að hefjast handa við að hætta alfarið notkun eldri greiðslu- og innlánakerfa RB. Þetta er stórt verkefni sem snertir Landsbankann með beinum hætti þar sem við þurfum að losa ýmsar lausnir af stórtölvu RB en til stendur að hætta notkun hennar. Ég tók nýlega sæti í stjórn RB og það verður gaman að fylgjast með og taka þátt í þessu og öðrum verkefnum, bæði í gegnum stjórnarsetuna og með störfum mínum hjá bankanum.
Framundan eru fleiri stór og krefjandi verkefni, meðal annars er ég að taka þátt í að undirbúa verkefni um að taka upp evrópskar reglubækur fyrir greiðslumiðlun á Íslandi. Við erum nefnilega svo góðu vön hér á Íslandi að hafa verið með rauntímagreiðslur síðan RB gerði það mögulegt árið 1987! Þá vorum við langfyrsta landið í heiminum til að gera slíkt og í dag þykir okkur ekkert sjálfsagðara en að geta millifært okkar á milli á innan við sekúndu. Vinir okkar í Evrópu eru bara rétt nýfarin að geta þetta. Þau eru þó strax komin skrefi framar því þau geta sent evrur á milli landa í rauntíma en fyrir okkur tekur nokkrar klukkustundir og upp í einn dag að koma evrum yfir til Evrópu. Þessi vinna í Evrópu hefur verið unnin af EPC (European Payments Council) en þar sit ég í stjórn fyrir hönd íslensku bankanna. Vinnan er því samræmd og unnin í samstarfi við markaðinn í heild og því eru allir bankar að gera þetta með sömu aðferð, á hagkvæman hátt eftir sömu reglubókinni. Við erum að skoða hvernig við getum aðlagað okkar innviði að þessum evrópsku stöðlum. Það er mikilvægt að við stöndum jafnfætis evrópska markaðnum og fáum þannig betri tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegu eða evrópsku samstarfi um greiðslur bæði fyrir bankann og fyrir viðskiptavinina.“