Sveigjanleg þjónusta þegar þér hentar

Við viljum auðvelda viðskiptavinum lífið og nýtum tæknina til að gera þjónustuna sveigjanlegri og aðgengilegri. Sömuleiðis nýtum við sérfræðikunnáttu starfsfólks og gögn bankans til að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu og persónulega og faglega ráðgjöf.

Ung listakona

Mikil ánægja með þjónustu bankans

Við vinnum eftir skýrri stefnu sem hefur skilað sér í nýjum lausnum fyrir viðskiptavini, aukinni ánægju og betri og skilvirkari þjónustu. Undanfarin ár hefur ánægja með þjónustu bankans farið vaxandi, eins og meðal annars kemur fram í reglulegum Gallup-könnunum og á því að Landsbankinn hefur mælst efstur í Íslensku ánægjuvoginni þrjú ár í röð.

Nánast öll þjónusta bankans er aðgengileg með stafrænum hætti eða í sjálfsafgreiðslu. Viðskiptavinir okkar eru fljótir að tileinka sér nýjungar og í langflestum tilfellum nota þeir símann eða tölvuna til að ljúka sínum bankaerindum, fá ráðgjöf og leita sér upplýsinga. Þegar á þarf að halda erum við til staðar um allt land, með 36 útibú og afgreiðslustaði.

Á árinu 2021 hélt viðskiptavinum áfram að fjölga og markaðshlutdeild jókst. Í loks árs 2021 var markaðshlutdeild bankans meðal einstaklinga 39,5%, samkvæmt gögnum bankans, og hefur aldrei mælst hærri.

Betri kjör á íbúðalánum og betri þjónusta

Undanfarin þrjú ár höfum við nær samfellt boðið lægstu óverðtryggðu íbúðalánavextina. Við höfum líka gert ferlið við íbúðalánatöku og endurfjármögnum einfaldara og fljótlegra. Þetta hefur leitt til þess að fólk velur í auknum mæli að taka íbúðalán hjá Landsbankanum. Á árinu 2021 veittum við yfir 1.500 íbúðalán vegna fyrstu kaupa, 30% fleiri en árið 2020. Markaðshlutdeild okkar meðal þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð var 46%*. Við veittum ný íbúðalán til nær 9 þúsund heimila á árinu og um 29% viðskiptavina okkar sem voru með íbúðalán endurfjármögnuðu lánin sín. Eftirspurn eftir íbúðalánum var mikil og jukust útlán um 25% milli ára.

Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði
39,5%
Markaðshlutdeild í íbúðalánum*
41,2%
Markaðshlutdeild hjá fyrstu kaupendum**
46,0%
* Heimild: SÍ
**Heimild: Gallup

Meirihluti velur óverðtryggð íbúðalán

Mikill meirihluti nýrra og endurfjármagnaðra íbúðalána á árinu 2021 var óverðtryggður, eða 92,5%. Um 40% þessara lána er með fasta vexti. Við sáum skýrt og greinilega hvernig hækkandi vextir Seðlabanka Íslands leiddu til þess að margir viðskiptavinir sem voru með lán á breytilegum vöxtum kusu að festa vextina. Til að sækja um að festa vexti þarf bara að ýta á „Festa vexti“ hnappinn í Landsbankaappinu. Samhliða hækkun vaxta á seinni hluta ársins nýttu margir sér þennan nýja möguleika, sem var einn þeirra sem við bættum við á árinu 2021.

Önnur breyting sem við kynntum á árinu var að bjóða betri kjör á lánum með föstum vöxtum ef veðhlutfall er undir 60% af fasteignamati. Sé veðsetningin undir 50% verða kjörin enn betri.

Ráðgjöf á fundum og fjarfundum

Langflest erindi sem áður kröfðust heimsóknar í útibú má nú leysa í símanum eða tölvunni. Þörfin fyrir vandaða fjármálaráðgjöf er á hinn bóginn óbreytt eða jafnvel meiri en áður. Við leggjum því enn meiri áherslu á góða ráðgjöf og sveigjanlega þjónustu.

Í október 2021 breyttum við afgreiðslutíma útibúa, sem áður voru opin frá kl. 9, þannig að opið er á milli kl. 10-16. Um leið gerðum við viðskiptavinum kleift að panta sér tíma í ráðgjöf í gegnum fjarfundaforritið Teams frá kl. 10 til 18 alla virka daga. Með því jukum við sveigjanleika í þjónustu, því í mörgum tilfellum getur það hentað viðskiptavinum betur að ræða við okkur utan hefðbundins opnunartíma. Meðal þess sem hefur breyst í heimsfaraldri Covid-19 er að fleiri kjósa að eiga fjarfundi og öll erum við mun vanari en áður að nota fjarfundabúnað. Fjarfundir tryggja líka að viðskiptavinir eiga auðvelt með að fá ráðgjöf, óháð búsetu og engu skiptir heldur hvar starfsfólkið sem veitir ráðgjöfina er staðsett.

Kona í ráðgjöf

Tímapöntunum vel tekið

 Á árinu pöntuðu viðskiptavinir 34.000 tíma í ráðgjöf eða símtal frá bankanum sem er 16% aukning frá fyrra ári.  Viðskiptavinir okkar hafa tekið vel í þjónustuna og sífellt fjölgar þeim sem kjósa að panta ráðgjöf í síma eða á fjarfundi.

Fleiri sjálfsafgreiðslutæki aðgengileg allan sólarhringinn

Um leið og afgreiðslutímanum var breytt var sjálfsafgreiðslutækjum í útibúum, s.s. hraðbönkum, mynttalningarvélum og myntrúllusjálfsölum fjölgað og fleiri voru gerð aðgengileg allan sólarhringinn. Á höfuðborgarsvæðinu er nú hægt að fá reiðufjárþjónustu hjá gjaldkerum í Borgartúni 33 og Austurstræti 11 en starfsfólk allra útibúa er sem fyrr boðið og búið að aðstoða viðskiptavini við að nýta sér sjálfsafgreiðslutækin, netbanka og appið.

Kort af útibúaneti Landsbankans

Nýir kostir í sjálfbærum sparnaði

Á árinu kynntum við tvo nýja sjálfbæra sparnaðarkosti. Annars vegar er um að ræða sjóðinn Eignadreifing – sjálfbær sem er í rekstri hjá Landsbréfum en sjóðurinn fjárfestir eingöngu í fjármálagerningum, svo sem hlutabréfum, skuldabréfum og hlutdeildarskírteinum útgefenda sem skara fram úr á sviði sjálfbærni. Hins vegar kynntum við nýjan sparireikning, Vaxtareikning sjálfbæran, fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Landsbankinn fjármagnar sjálfbær verkefni fyrir sömu upphæð og lögð er inn á Vaxtareikning sjálfbæran. Sjálfbær fjármálaumgjörð Landsbankans gerir okkur kleift að stýra fjármagni í sjálfbær verkefni af ýmsum toga á gagnsæjan og trúverðugan hátt. Með sjálfbærum sparnaði gefst viðskiptavinum kostur á að hafa áhrif á verkefni sem styðja við umhverfi okkar og samfélag. Við erum stolt af því að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa valmöguleika.

Breyting á venjum vegna heimsfaraldurs

Heimsfaraldur Covid-19 leiddi til ýmissa breytinga á hvernig fólk sækir sér vörur og þjónustu sem m.a. birtist í aukinni netverslun. Fleiri vöndust því líka að sinna bankaerindum á netinu. Vísbendingar eru um að þessar breytingar séu komnar til að vera. Útibú voru lengi vel lokuð, eða aðgengi mjög takmarkað, á meðan faraldurinn stóð sem hæst árið 2020 og þannig fækkaði aðgerðum sem starfsfólk framkvæmdi fyrir viðskiptavini í útibúum á tímabilinu. Eftir að samkomutakmarkanir voru rýmkaðar hafa aðgerðir í útibúum og heimsóknir þangað ekki farið í sama horf og fyrir faraldurinn. Viðskiptavinir hafa tileinkað sér nýjar leiðir í bankaþjónustu, notkun stafrænna lausna hefur aukist og erindum sem Þjónustuver bankans leysir hefur fjölgað. Hvort áhrif heimsfaraldursins hvað þetta varðar séu komin til að vera eða ekki, mun tíminn leiða í ljós, en okkur þykir það þó afar líklegt.

Verkefnin eru unnin um land allt

Landsbankinn er með víðfeðmt útibúanet um allt land og þar vinnur öflugt og reynslumikið starfsfólk. Þegar við urðum að takmarka aðgengi að útibúum vegna sóttvarnarráðstafana breyttust verkefnin í útibúunum og starfsfólk þeirra fékk meiri tíma til að sinna fleiri verkefnum. Um leið jókst eftirspurn eftir ýmis konar ráðgjöf, einkum vegna íbúðalána. Við ákváðum að nýta þetta tækifæri til að dreifa ýmsum verkefnum og álagi betur á útibúakerfið. Við tókum upp kerfi sem gerði starfsfólki um allt land kleift að sinna ráðgjöf og þjónustu við viðskiptavini algjörlega óháð búsetu. Þannig gat til að mynda starfsfólk okkar í Snæfellsbæ eða Dalvík veitt viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu ráðgjöf og aðstoð. Með þessu fengu viðskiptavinir okkar betra aðgengi að sérþekkingu, biðin eftir þjónustu styttist auk þess sem tími starfsfólks nýttist betur og störf þeirra urðu fjölbreyttari. Mikil ánægja er með þessar breytinga meðal starfsfólks, ekki síst á landsbyggðinni.

Afgreiðsla íbúðalána fyrir allt landið kærkomin áskorun

„Megin viðfangsefni okkar í útibúinu snúa að ráðgjöf og þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga varðandi útlán og innlán ásamt almennri afgreiðslu, s.s. reiðufjárafgreiðslu, greiðslumiðlun og greiðsluþjónustu. Starfsemin er ekki lengur bundin við Snæfellsnes eða fólk með tengsl við það heldur sinnum við þjónustu við viðskiptavini um allt land. Helstu verkefni undanfarið tengjast íbúðalánum, en fólk er að taka ný lán, endurfjármagna, festa vexti og svo framvegis.

Rafbíll í hleðslu

Fleiri kaupa vistvæna bíla

Á árinu 2021 fjölgaði vistvænum bílum mjög mikið og það kom vel fram í fleiri lánum til kaupa á vistvænum bílum. Árið 2020 voru um 30% bílalána vegna kaupa á vistvænum bíla en hlutfallið var orðið 49% árið 2021.

Mundu eftir Aukakrónunum

Aukakrónur er öflugasta fríðindakerfi á landinu en viðskiptavinir Landsbankans söfnuðu 509 milljónum Aukakróna á árinu og keyptu vörur og þjónustu hjá samstarfsaðilum fyrir 431 milljón Aukakrónur. Á árinu hófum við samstarf við já.is þannig að nú geta viðskiptavinir sem safna Aukakrónum leitað eftir vöru eða þjónustu á já.is og séð hvort hægt sé að greiða fyrir með Aukakrónum. Það er einfalt að sjá stöðuna á Aukakrónukortinu í appinu og í netbankanum. Viðskiptavinir safna Aukakrónum með því að nota kreditkortið sitt hjá samstarfsaðilum Aukakróna. Endurgreiðsluafslátturinn er allt að 15%, en auk þess leggur bankinn 0,2-0,5% af allri innlendri verslun og boðgreiðslum inn í Aukakrónusöfnunina.

Húsnæði í takt við þarfir

Við aðlöguðum ekki bara þjónustu okkar á höfuðborgarsvæðinu að breytingum á bankaþjónustu heldur gerðum við einnig breytingar á landsbyggðinni. Afgreiðslur okkar á Þórshöfn og Djúpavogi eru nú komnar í nýtt húsnæði sem hentar starfseminni betur. Við tókum einnig þátt í samstarfi um nýtt skrifstofuhótel og fjarvinnuver á Þorlákshöfn samhliða því flytja í nýtt og hagkvæmara húsnæði þar. Á árinu flutti útibúið á Ísafirði líka í hentugra húsnæði.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur