Þegar loka þurfti útibúum vegna Covid-19 urðu miklar breytingar á starfseminni og við tókum áskoruninni fagnandi. Samstarfsfólk mitt hefur verið sérlega öflugt við að grípa þau verkefni sem gefast. Þetta hefur blásið miklu lífi í starfsemina og gefið okkur tækifæri til að vinna fleiri og fjölbreyttari verkefni. Auk þess sem verkefnum hefur fjölgað í tengslum við veitingu íbúðalána er ráðgjöf í síma einnig stór hluti af okkar starfi. Starfsfólk í útibúinu hefur líka tekið við verkefnum frá öðrum deildum, einn er á símanum hjá Þjónustuverinu hluta úr degi og önnur að vinna í að svara póstum sem koma í pósthólf Þjónustuversins þegar færi gefst. Við höfum gaman af áskorunum og eins að bæta á okkur verkefnum.“
Mitt starf sem útibússtjóri felst í því að bera ábyrgð á daglegri starfsemi útibúsins og þeim verkefnum sem við sinnum en ekki síður að koma auga á og sækja ný tækifæri og verkefni. Einnig er mikilvægur þáttur af starfinu að mynda tengsl við viðskiptavini og samfélagið og viðhalda þeim. Landsbankinn er mikilvægur hluti af samfélaginu í Snæfellsbæ. Við þjónum bæði fyrirtækjum og einstaklingum í þeirra umhverfi, styðjum við íþróttir, menningu og góðgerðarmál og reynum að vera sýnileg í nærsamfélaginu. Í minni samfélögum, þar sem atvinnulífið er kannski ekki jafn fjölbreytt og á stærri stöðum, er hvert starf sérstaklega mikilvægt. Því hefur þessi breyting hjá okkur í Landsbankanum, að virkja hæft starfsfólk um allt land til vinna verkefnin þvert á bankann, verið framsýn. Hún er sérlega mikilvæg fyrir landsbyggðarútibúin en líka fyrir bankann í heild.“