Mannauður og jafnrétti

Líkt og á fyrra ári einkenndist starfsemi bankans árið 2021 af margvíslegum áskorunum vegna Covid-19. Í sinni einföldustu mynd má segja að áskorunin felist í jafnvægi þess að tryggja heilsufarslegt öryggi starfsfólks en einnig rekstur bankans og góða þjónustu.

Fólk á fundi

Nýjar áskoranir í mannauðsmálum

Covid-19 hefur kennt okkur margt nýtt og breytt viðhorfum fólks til framtíðar. Möguleikar starfsfólks til að sinna vinnu heima eru nærtækari en áður og fólk hefur auknar væntingar um að geta sinnt starfi sínu að hluta til heima. Starfsfólk Landsbankans hefur þó misjafnar skoðanir á heimavinnu. Í könnun meðal starfsfólks í október kom fram að 18% hafa engan áhuga á að vinna heima, 29% óska þess að vinna heima einn dag í viku, 33% óska þess að vinna heima tvo daga í viku, 14% óska sér þriggja daga heimavinnu, 2% fjögurra daga og 4% óska þess að vinna heima alla daga vikunnar.    

Möguleikinn á að vinna heima eða í annars konar fjarvinnu er orðinn raunverulegur fyrir mun fjölbreyttari flóru starfa og á árinu voru gefin út viðmið fyrir heimavinnu starfsfólks óháð Covid-19-smitum. Starfsfólk hefur nýtt sér heimavinnu eftir atvikum jafnvel þótt smitvarnir krefjist þess ekki.

Í könnun meðal starfsfólks í mars 2021 reyndist ánægja og stolt starfsfólks meira en nokkru sinni áður, sem bendir til þess að vel hafi tekist að hlúa að starfsfólki í stöðugri aðlögun að sóttvarnarviðmiðum á hverjum tíma.

Flutningur í ný húsakynni á Austurbakka er tilhlökkunarefni en rúmlega 80% starfsfólks segjast nú þegar jákvæð í garð flutninganna og að nýtt húsnæði muni bæta starfsaðstöðu sína.

Kona á fundi

Mannauðsstefna

Hjá okkur starfar framúrskarandi starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. Mannauðsstefnan leggur áherslu á starfsánægju, gott starfsumhverfi og markvissa starfsþróun.

Lesa nánar um mannauðsstefnu á landsbankinn.is.

Bankapúlsinn

Á hverju ári framkvæmum við ítarlega vinnustaðagreiningu á fyrri hluta árs og aðra umfangsminni á haustin. Sú síðarnefnda kallast Bankapúlsinn og fylgir eftir þeim umbótamarkmiðum sem sett eru í kjölfar vinnustaðagreiningar. Saman gefa þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um líðan og viðhorf starfsfólks til vinnustaðarins. Mælingar í mars 2021 sýndu meiri starfsánægju, stolt og hollustu en nokkru sinni áður. Starfsánægjan minnkaði í lok árs samkvæmt mælingum og verið er að greina niðurstöðurnar.

Sjálfbærni sífellt mikilvægari að mati starfsfólks

Við mælum árlega viðhorf starfsfólks til samfélagsábyrgðar bankans með könnun þar sem spurt er um mikilvægi hennar. Undanfarin ár hefur starfsfólk veitt samfélagsábyrgð sífellt þyngra vægi. Árið 2021 mældist mikilvægi samfélagsábyrgðar 4,51 af 5 mögulegum.

Jafnrétti í víðu samhengi

Við höfum um árabil sett jafnréttismál á oddinn út frá ólíkum nálgunum. Undanfarin ár hafa þau verið tekin enn fastari tökum, m.a. með þátttöku í Jafnréttisvísi, og við unnið markvisst að því að skapa góða og heilbrigða fyrirtækjamenningu.

Hugað er að jafnréttismálum, mannréttindum og fjölbreytileika samfélagsins á mismundandi stigum starfseminnar, s.s. í ráðningum, jöfnum starfstækifærum, samstarfsverkefnum og þegar ákveðið er hverjir koma fram fyrir hönd bankans.

Jafnræði í stefnumótun og launamálum

Við erum með skýra jafnréttisstefnu. Lögð er áhersla á að allir njóti sömu starfstækifæra og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstaklega kynjuð störf. Mikil áhersla er lögð á að öllum séu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Við stefnum að því að ná 40/60 kynjahlutfalli í öllum stjórnarlögum.

Jafnvægi milli vinnu og heimilis

Við leggjum áherslu á vellíðan í starfi og að starfsfólk geti samræmt vinnu og heimilislíf. Við teljum að sveigjanleiki í starfi eigi einungis eftir að aukast eftir reynsluna í heimsfaraldrinum.

Jafnlaunavottun

Lögbundin jafnlaunavottun tók formlega gildi hjá okkur í mars 2019. Við fylgjumst stöðugt með þróuninni og upplýsingum um launamun er miðlað til framkvæmdastjórnar mánaðarlega. Áður en bankinn hlaut lögbundna jafnlaunavottun höfðum við í tvígang hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC, upphaflega árið 2015, fyrst banka. Aðhvarfsgreining desemberlauna 2021 leiðir í ljós að launamunur kynjanna er 1,4% körlum í vil. Stöðugt er unnið að því að draga úr launamuninum, en markmið okkar er að hafa engan launamun. Sem dæmi má nefna að við sérhverja launaákvörðun eru áhrif á launamuninn höfð til hliðsjónar.

Jafnréttisvísir

Þátttaka í Jafnréttisvísi hófst árið 2018 og við settum okkur markmið til ársins 2022. Allt starfsfólk tók þátt í þessu viðamikla verkefni og var staða jafnréttismála metin með ítarlegri greiningu og sett fram fjölbreytileg verkefni og markmið sem enn er unnið að. Nú er tímabært fyrir okkur að huga að nýjum markmiðum.

Jafnrétti við ráðningu starfsfólks

Haldið hefur verið utan um kynjahlutfall umsækjenda og viðtalsboðun skráð, auk upplýsinga um endanlega ráðningu. Enn fremur höfum við unnið að því að upplýsa stjórnendur um ómeðvitaða fordóma í ráðningarferli og leiðir til þess að draga úr áhrifum þeirra.

Maður á fundi

Jafnrétti til starfsþróunar og símenntunar

Við leggjum áherslu á að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku í fræðslu. Starfsþróunar- og mentorakerfi var komið á fót til að styrkja starfsfólk í sinni starfsþróun. Þar var haft í huga að jafna kynjahlutföllin í stjórnunarstöðum. Í vinnustaðagreiningu bankans er sérstaklega spurt um jöfn tækifæri kynja innan bankans.

Jafnrétti í innri og ytri samskiptum

Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi fyrirmynda. Undanfarin misseri hefur markvisst verið skráð hverjir koma fram fyrir hönd bankans í fjölmiðlum, á ráðstefnum og fundum utan bankans. Auk þess er skráð hverjir skrifa greinar á vefinn. Það hefur reynst gott aðhald og er kynjahlutfall þeirra sem komið hafa fram fyrir hönd bankans á undanförnum árum mjög jafnt.

EKKO

Við höfum mótað viðbragðsáætlun við einelti, kynbundnu misrétti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO). Allt starfsfólk hefur fengið fræðslu um málefnið og vinnustofur verið haldnar fyrir stjórnendur bankans. Vitund starfsfólks og stjórnenda um málefnið hefur aukist og fagleg úrvinnsla verið tryggð. Starfsfólk getur rætt við óháðan ytri aðila ef upp koma erfið mál. Mæling á tíðni atvika, upplifana og tilkynninga er hluti af árlegri vinnustaðagreiningu.

Jafnrétti og fjölbreytileiki í samstarfsverkefnum og markaðsefni

Við erum meðvituð um jafnréttissjónarmið, mannréttindi og fjölbreytileika samfélagsins þegar kemur að markaðsefni og í samstarfsverkefnum. Þar má nefna að Landsbankinn hefur verið helsti bakhjarl Hinsegin daga frá upphafi og við gætum þess að kynjasjónarmið séu höfð í huga þegar ungt tónlistarfólk er valið til samstarfs í tengslum við Iceland Airwaves, svo fátt eitt sé nefnt.

Jafnræði í aðgengismálum í appi og á vef

Við þróun Landsbankaappsins var hugað að aðgengismálum allt frá upphafi og fengum við til þess góða aðstoð og leiðbeiningar. Það var okkur mikilvægt að hugsa um aðgengismál á öllum stigum þróunarinnar. Sömu sögu er að segja um vinnu að vef Landsbankans þar sem lögð er áhersla á aðgengi fyrir alla.

Jafnrétti fyrir starfsfólk af erlendum uppruna

Við viljum vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir fólk af fjölbreyttum uppruna. Til að styðja betur við starfsfólk af erlendum uppruna er starfsfólki með annað móðurmál en íslensku boðið upp á íslenskukennslu í samvinnu við fagaðila, þar sem kennslan er sniðin að þörfum hvers og eins.

Stuðningur við konur í atvinnurekstri

Til að styðja við aukin viðskiptatengsl fyrir fyrirtæki í eigu kvenna, þar með talin lítil fyrirtæki og konur í nýsköpun, höfum við í samstarfi við Svanna – lánatryggingasjóð kvenna veitt konum í atvinnurekstri lán sem sjóðurinn og bankinn ábyrgjast sameiginlega.

Alþjóðlegar skuldbindingar til að stuðla að jafnrétti

Við höfum skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar á vettvangi sjálfbærni þar sem unnið er að því að auka jafnrétti, vinna að loftslagsmálum, draga úr fátækt og auka menntun og tækifæri fyrir konur og stúlkur. Má þar nefna verkefni SÞ um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI), hnattrænt samkomulag SÞ og fjármálaverkefni Umhverfisstofnunar SÞ um ábyrga bankastarfsemi (UNEP-FI PRB).

Maður á fundi

Heildstæð lærdómsmenning

Síðustu ár höfum við lagt mikla áherslu á að starfsfólk fái stuðning og tækifæri til þess að huga að eigin starfsþróun og bæta við sig þekkingu. Starfsumhverfi okkar er í örri þróun og því er mikilvægt að starfsfólki standi til boða heildstæð fræðsla innan sem utan bankans í takt við stefnu, áskoranir og verkefni bankans á hverjum tíma.

Fræðslustarf árið 2021

Áherslur í fræðslustarfi bankans árið 2021 voru innleiðing nýrrar stefnu, aðlögun að sveigjanlegu vinnuumhverfi og heilbrigði og vellíðan starfsfólks. Boðið var upp á reglulega upplýsingafundi um stefnumálefni, fræðslu um endurkomu úr fjarvinnu, námskeið um rafrænar leiðir í samvinnu og samskiptum, ásamt fleiru sem hæst bar hverju sinni og varðaði starfsumhverfi bankans. Á fræðsludagskránni vorum við einnig með fræðslu sem snéri að innra verklagi, s.s. vörum og þjónustu, lögum og reglum. Fræðslan var í formi fyrirlestra, námskeiða og vinnustofa og rafrænnar fræðslu

Markviss starfsþróun

Verkefnið markviss starfsþróun miðar að því að efla starfsfólk bankans í færniþáttum sem taldir eru mikilvægir á vinnumarkaði framtíðarinnar. Þessir færniþættir eru m.a. leiðtogafærni, samskiptafærni, gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun og hæfni í samvinnu. Þátttakendur sækja námskeið og markþjálfun sem stendur yfir í tvær annir. Á árinu 2021 tóku 44 einstaklingar þátt í verkefninu.

Líkt árið áður hafði Covid-19 áhrif á fræðslustarf bankans árið 2021. Þannig var fræðsla í gegnum fjarfundabúnað meira notuð en áður.

Virkni í fræðslu

Sé litið til fræðslu sem er ekki skyldufræðsla sótti 76% starfsfólks sér starfstengda fræðslu á vegum bankans á árinu.

Stjórnendaþjálfun

Á árinu 2021 var stjórnendum boðið upp á þjálfun og fræðslu þar sem lögð var áhersla á þær áskoranir sem mæta stjórnendum í nýju og breyttu vinnuumhverfi. Virkni stjórnenda í fræðslu á árinu var mjög góð, eða um 90%. Þá áttu stjórnendur einnig kost á því að sækja tíma í markþjálfun hjá stjórnendaráðgjafa.

Nýliðaþjálfun

Á fyrstu vikum og mánuðum í starfi þarf nýtt starfsfólk að ljúka rafrænni skyldufræðslu. Fræðslan snýr m.a. að almennum upplýsingum um starfsemi bankans, regluverki og siðasáttmála. Stjórnendur bera ábyrgð á því að nýtt starfsfólk fái góðar móttökur og viðeigandi þjálfun á starfsstöð.

Undirbúningur starfsloka

Starfsfólki sem hyggur á starfslok á næstu tveimur árum er boðið að sækja tveggja daga námskeið til þess að undirbúa sig sem best fyrir þessi mikilvægu tímamót. Lögð er áhersla á staðkennslu á þessum námskeiðum og góða tengslamyndun. Haldin voru tvö starfslokanámskeið á árinu.

Styrkir til að efla þekkinguna

Starfsfólk er hvatt til þess að sækja styrki til náms og símenntunar í gegnum starfsmannafélag bankans (FSLÍ) og sitt stéttarfélag. Styrkirnir styðja starfsfólk til að sækja lengra nám eða námskeið utan bankans.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur