Helstu sjálfbærniverkefni

Við tókum stór skref í sjálfbærnivinnu okkar á árinu 2021. Við áætluðum losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum okkar fyrst íslenskra banka, uppfærðum áherslur okkar í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og gáfum tvisvar út græn skuldabréf. Sjálfbærnimerki bankans fyrir sjálfbæra fjármögnun fyrirtækja leit dagsins ljós og við kynntum til sögunnar nýjan sparireikning og sjóð sem stuðla að sjálfbærni. Auk þess fengum við okkar bestu einkunn í UFS-áhættumati Sustainalytics til þessa.

Stúlka á reiðhjóli

Sjálfbærnistefnan uppfærð

Við uppfærðum sjálfbærnistefnu okkar á árinu 2021. Stefnan kemur inn á öll svið bankans, skilgreinir helstu áherslur okkar í sjálfbærni og lýsir því hvernig við hyggjumst tileinka okkur þær í starfseminni.  Stefnan fjallar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál, félagslega þætti, stjórnarhætti, UFS-áhættumat, ábyrgar fjárfestingar og ábyrgar lánveitingar.

Áherslubreytingar í heimsmarkmiðum

Við fylgjum fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Á árinu 2021 endurskoðuðum við hvaða heimsmarkmið samræmdust best rekstri bankans og studdumst við verkfærakistu Sameinuðu þjóðanna við vinnuna. Niðurstaðan var sú að breyta aðeins áherslunum og fjölga heimsmarkmiðunum sem við fylgjum úr þremur í fjögur. Markmiðin tengjast öll starfsemi bankans og því getur vinnan að þeim hámarkað jákvæð áhrif bankans á umhverfi og samfélag.

Heimsmarkmið 5 - jafnrétti kynjanna
Heimsmarkmið 8 - góð atvinna og hagvöxtur
Heimsmarkmið 9 - nýsköpun og uppbygging
Heimsmarkmið 13: Aðgerðir í loftslagsmálum

Við fylgjum einnig viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi (PRB) sem hjálpa bönkum að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og Parísarsáttmálanum.

Sjálfbærnimarkmið Landsbankans

Markmið okkar í sjálfbærni voru endurskoðuð. Nánar má lesa um þau í kaflanum Sjálfbærniuppgjör.

Vera upplýst og upplýsa um sjálfbærniáhrif bankans
Leggja áherslu á ábyrgar lánveitingar
Ná fram samdrætti í beinni losun gróðurhúsalofttegunda
Ná fram samdrætti í óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda
Kynjahlutföll meðal stjórnenda skulu verða innan settra viðmiðunarmarka
Aðgerðir gegn mismunum – miðla skal upplýsingum um EKKO-stefnu
Endurskoða skal sjálfbærniupplýsingar
Viðskiptum skal beint til ábyrgra byrgja

Slagkraftur Landsbankans er mikill

„Samfélagið er nýtt svið hjá bankanum sem samanstendur af þremur deildum sem gegna lykilhlutverki í samskiptum við starfsfólk og viðskiptavini, þ.e. Mannauður, Markaðsdeild og Hagfræðideild, auk samskiptateymis og sjálfbærniteymis.

Slagkraftur Landsbankans er mikill en til þess að hann nýtist okkur sem best til að ná settum markmiðum verðum við öll að beina kröftum í sömu átt á sama tíma. Það krefst skipulagningar og samhæfingar, bæði til lengri og skemmri tíma.

Leiðandi í UFS-áhættumati Sustainalytics

Í UFS-áhættumati frá Sustainalytics í maí 2021 fengum við okkar bestu einkunn hingað til. Landsbankinn var fremstur meðal 423 sambærilegra banka sem fyrirtækið hafði mælt. Við lækkuðum úr 13,5 niður í 9,7 á skala sem nær upp í 100. Þetta þýðir að Sustainalytics telur hverfandi áhættu á að Landsbankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS-þátta) sem eru þeir þættir sem skoðaðir eru í áhættumatinu.

Sjálfbær fjármálaumgjörð

Í janúar 2021 gáfum við út okkar fyrstu sjálfbæru fjármálaumgjörð. Umgjörðin er vottuð af Sustainalytics og myndar ramma um fjármögnun bankans á umhverfisvænum og félagslegum verkefnum. Hún byggir á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (ICMA) og nýlegum viðmiðum Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy) um græna og félagslega fjármögnun.

Grænar skuldabréfaútgáfur

Á árinu 2021 gáfum við tvisvar út græn skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra í hvort skipti. Grænar skuldabréfaútgáfur styðja við sjálfbærnivegferð okkar, skila gjarnan betri kjörum og ná til breiðari hóps fjárfesta.

Áhrifaskýrsla fyrir græn skuldabréf  (e. impact report)

Á árinu 2021 unnum við í útgáfu áhrifaskýrslu fyrir græn skuldabréf sem gefin var út rétt eftir áramót 2022. Þá voru þeim fjárfestum sem fjárfestu í grænum skuldabréfum bankans gefnar ítarlegar upplýsingar um nýtingu fjármagnsins og hvaða áhrif það hafði. Sustainalytics staðfesti að nýting fjármagns var í samræmi við sjálfbæra fjármálaumgjörð bankans.

Vaxtareikningur sjálfbær

Á árinu 2021 kynntum við til sögunnar nýjan sparireikning, Vaxtareikning sjálfbæran, þar sem innlánum er ráðstafað til fjármögnunar á verkefnum sem stuðla að sjálfbærni. Með þessum nýja sparireikningi geta viðskiptavinir okkar látið sparnaðinn hafa góð áhrif á umhverfi og samfélag. Reikningurinn styðst við sjálfbæru fjármálaumgjörðina okkar.

Eignadreifing sjálfbær

Nýr fjárfestingarsjóður Landsbréfa, Eignadreifing sjálfbær, leit dagsins ljós á árinu 2021 en sjóðurinn skoðar áhrif á UFS-þætti við fjárfestingarákvarðanir sínar. Nú bjóðast viðskiptavinum okkar því fleiri fjárfestingarkostir sem samræmast aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. 

Nýtt sjálfbærnimerki bankans: Sjálfbær fjármögnun fyrirtækja

Við bjóðum fyrirtækjum upp á sjálfbæra fjármögnun. Þegar fyrirtæki uppfyllir skilyrði fyrir slíkri  fjármögnun getur það fengið sjálfbærnimerki Landsbankans. Útgerðarfélag Reykjavíkur varð árið 2021 fyrsta fyrirtækið til að fá merkið í tengslum við fjármögnun bankans á MSC-vottuðum fiskveiðum. Í lok árs fékk Orkuveita Reykjavíkur merkið vegna framleiðslu á rafmagni og hita með lágu kolefnisspori, sem og Ljósleiðarinn vegna uppsetningar og rekstrar ljósleiðara.

Runólfur V. Guðmundsson forstjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur og Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans
Sjálfbærnimerki Landsbankans

Við þekkjum losun frá útlánum okkar

Á árinu 2021 áætluðum við losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánum okkar með aðferðafræði PCAF og birtum opinberlega, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja. PCAF stendur fyrir Partnership for Carbon Accounting Financials og hefur það markmið að samræma mat á umfangi losunar fjármálafyrirtækja í gegnum lánveitingar og fjárfestingar. Þetta er stórt skref, því helsta áskorun banka í loftslagsmálum hefur verið að meta óbein umhverfisáhrif sín. Við teljum mikilvægt að þekkja kolefnisspor okkar til hlítar en einungis 1% af kolefnislosuninni er vegna reksturs bankans.

Leiðandi í alþjóðlegri þróun PCAF

Sérfræðingar okkar taka þátt í að leiða þróun á alþjóðlegri aðferðafræði PCAF, samstarfsvettvangi fjármálafyrirtækja, en aðferðafræðin gerir fjármálafyrirtækjum kleift að meta óbein umhverfisáhrif sín og setja tölfræðina fram á samræmdan hátt. Sérfræðingar okkar hafa tekið virkan þátt í verkefninu frá upphafi og verið leiðandi í samstarfinu. Um 170 fjármálafyrirtæki og fjárfestar hafa nú skuldbundið sig til að nota aðferðafræðina við mat á óbeinum umhverfisáhrifum sínum.

Starfsemin áfram kolefnisjöfnuð

Við endurnýjuðum hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun og höfum kolefnisjafnað hefðbundna starfsemi bankans fyrir árið 2021. Í samstarfi við Natural Capital Partners kolefnisjöfnum við starfsemi bankans með bindingu eða minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Sú binding er vottuð samkvæmt ströngustu alþjóðlegu stöðlum og hefur þegar átt sér stað.

Stúlka setur pappír í endurvinnslu

Fyrsta sjálfbærniskuldabréfið gefið út hérlendis

Við unnum með sveitarfélaginu Árborg að útgáfu fyrsta sjálfbærniskuldabréfsins sem gefið var út á Íslandi. Landsbankinn var ráðgefandi í ferlinu frá upphafi og í gegnum allt ferlið.

Ábyrgar fjárfestingar og ábyrgar lánveitingar

Við höfum lengi lagt áherslu á ábyrgar fjárfestingar, enda hefur sú aðferðafræði jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dregur úr rekstraráhættu. Í okkar starfi höfum við til hliðsjónar leiðbeiningar Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) og gefum árlega út framvinduskýrslu. Við viljum einnig  vera í fararbroddi hvað varðar ábyrgar lánveitingar þar sem þær draga úr rekstraráhættu fyrirtækja. Sjá nánar í sjálfbærnistefnu bankans.

Skýrari kröfur til birgja

Í lok árs 2021 lauk vinnu við að útbúa sáttmála sem birgjar bankans koma til með að skrifa undir. Með sáttmálanum skuldbinda birgjarnir sig til að tryggja að mannréttindi og félagafrelsi sé virt í eigin starfsemi og hjá undirverktökum; einnig að unnið sé gegn spillingu. Sáttmálinn byggir á hinum tíu viðmiðum hnattræns samkomulags Sameinuðu þjóðanna (e. Global Compact).

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Landsbankinn hefur verið fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum frá 2014 en viðurkenningin byggir á úttekt á stjórnarháttum bankans. Við ætlum að vera til fyrirmyndar í stjórnarháttum og fylgjum leiðbeinandi reglum Kauphallarinnar, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins þar um.

Mikil áhersla á netöryggismál

Netöryggismál eru alltaf  í brennidepli hjá okkur. Við lítum á víðtæka fræðslu um netöryggi sem hluta af samfélagsábyrgð okkar. Á árinu 2021 tóku sérfræðingar bankans virkan þátt í umræðu um netöryggismál í fjölmiðlum og við birtum reglulega fræðslugreinar um málefnið á vefnum okkar og á samfélagsmiðlum.

Virk í samfélagsumræðunni

Sérfræðingar okkar taka ríkan þátt í samfélagsumræðunni um sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Á árinu 2021 birtum við fjölda greina um málefnið á vef okkar og á samfélagsmiðlum, auk þess sem sjálfbærnisérfræðingar okkar voru áberandi á vettvangi sjálfbærni.

Skuldbindingar í sjálfbærni

Með þátttöku í eftirfarandi verkefnum höfum við tekist á hendur ýmsar skuldbindingar í sjálfbærnimálum. Við miðlum upplýsingum um gang mála hvað varðar sjálfbærni í GRI-skýrslu  sem er rituð eftir viðmiðum GRI (e. Global Reporting Initiative).

Festa, miðstöð um sjálfbærni og samfélagsábyrgð
Hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna (Global Compact)
Viðmið Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI)
Fjármálaverkefni Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP FI)
IcelandSIF, samtök um ábyrgar fjárfestingar áÍslandi
Viðmið um ábyrga bankastarfsemi (Principles for Responsible Banking, (PRB))
PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials)
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur