Verkefnin í Samfélagi eru fjölbreytt að efni og umfangi, allt frá stuttum söluherferðum til ítarlegra greinaskrifa til þróunar mannauðs til að mæta framtíðarþörfum um bankaþjónustu. Það er hlutverk okkar að tengja enn betur saman sérfræðiþekkingu og reynslu innan bankans, bæði inn á við og út til viðskiptavina. Til þess nýtum við okkur herferðir, fræðslu, viðburði, styrki, greinaskrif og hlaðvörp svo fátt eitt sé nefnt. Allt eru þetta verkfæri sem að við höfum til að segja sögu. Árangur Samfélags er ekki mældur í tölum nema að hluta til enda eru þetta huglægir þættir byggðir á upplifunum fólks, sama hvort átt er við viðskiptavini eða starfsfólk. En markmiði sviðsins er náð þegar að við erum með ánægða viðskiptavini og ánægt starfsfólk!
Breytingar skapa tækifæri
Viðskiptaumhverfið er að breytast, tæknin þeytist áfram, samskiptamáti og talandi viðskiptavina breytist og sömuleiðis hvernig einstaklingar og fyrirtæki forgangsraða tíma sínum og viðmiðum. Þessu viljum við bregðast við, bjóða upp á þjónustulausnir sem uppfylla þarfir, spara tíma, eru upplýsandi og einfaldar. Stöðug framþróun í stafrænum lausnum, gagnamiðaðri nálgun á markað og sjálfbærnivitund hjálpa okkur við að lágmarka sóun í bankanum og í lífi viðskiptavina. Hér spilar Samfélagið lykilhlutverk.
Í markaðsmálum höfum við lagt mikla áherslu á að byggja upp traust á markaðnum og munum áfram leggja okkur fram við að vera leiðandi í málefnum er varða starfsfólkið okkar, viðskiptavini og samfélagið. Stöðug framþróun þýðir þó að við þurfum alltaf að leita að tækifærum til að gera enn betur, t.d. tækifærum á borð við gagnamiðaða markaðssetningu sem byggir á að nýta gögn til að taka ákvarðanir og miðla upplýsingum sem skila sem mestum mælanlegum árangri. Við viljum nýta nútímalegar aðferðir við að vekja athygli og fá viðskiptavini til að bregðast við. Við viljum mæla árangur markaðsstarfsins eins og unnt er til að tryggja að tíma okkar og viðskiptavina sé vel varið.“