Fjölbreytt samstarf og stuðningur
Við tökum þátt í margvíslegum verkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu. Við styðjum fjölbreytt verkefni með fjárframlögum úr Samfélagssjóði og veitum námsstyrki. Við birtum víðtækt efni um efnahagsmál og leggjum okkur fram við fræðslu um fjármál.
Samfélagssjóður
Samfélagssjóður Landsbankans gegnir lykilhlutverki í stuðningi okkar við samfélagið. Árið 2021 voru veittir námsstyrkir að upphæð sex milljónir króna og samfélagsstyrkir að upphæð fimmtán milljónir króna, alls 21 milljón króna. Frá árinu 2011 hafa yfir 400 verkefni fengið samfélagsstyrki úr sjóðnum sem nema samtals rúmlega 200 milljónum króna. Dómnefndirnar eru skipaðar fagfólki utan bankans að meirihluta.
Samfélagsstyrkirnir styðja við verkefni á ýmsum sviðum, þar á meðal á sviði mannúðarmála, menningar og lista, menntunar, rannsókna og vísinda, forvarnar- og æskulýðsstarfs og á sviði umhverfismála og náttúruverndar.
Sjálfbærnisjóður
Í lok árs 2021 var tekin ákvörðun um að setja á fót nýjan styrktarsjóð sem ber heitið Sjálfbærnisjóður. Á vormánuðum 2022 verður í fyrsta sinn úthlutað úr sjóðnum, alls 10 milljónum króna, og verður áhersla lögð á verkefni sem tengjast orkuskiptum.
Hinsegin dagar
Við styðjum réttindabaráttu hinsegin fólks en Landsbankinn hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík frá upphafi. Í samstarfi við Hinsegin daga stöndum við einnig fyrir Gleðigöngupottinum, sem styður einstaklinga og smærri hópa við undirbúning og framkvæmd atriða í Gleðigöngunni. Vegna hertra sóttvarnaraðgerða var flestum fræðslu- og skemmtiviðburðum í tengslum við Hinsegin daga aflýst árið 2021.
Samtökin '78
Undanfarin ár höfum við stutt Samtökin '78, samtök hinsegin fólks á Íslandi, en eitt af markmiðum samtakanna er að auka sýnileika hinsegin fólks og tryggja að það njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi. Þjónusta samtakanna er víðtæk og bjóða þau meðal annars upp á ráðgjöf og fræðslu. Árið 2021 tóku Landsbankinn, Samtökin '78 og listafólkið Anna Maggý Grímsdóttir, Ásgeir Skúlason og Helga Páley Friðþjófsdóttir höndum saman og unnu þrjú prentverk tileinkuð Hinsegin dögum. Verkin voru til sölu á postprent.is og allur ágóði af sölu verkanna rann til Samtakanna '78.
Fjármálafræðsla
Við tökum þátt í fjármálafræðslu og eflingu fjármálalæsis, meðal annars með víðtækri umfjöllun um efnahag á Umræðunni og fræðslu á vefnum okkar. Við leggjum áherslu á fjármálafræðslu í framhaldsskólum með það mið fyrir augum að efla fjármálaskilning nemenda. Fræðsluheimsóknirnar standa öllum framhaldsskólum til boða og eru skipulagðar í samstarfi við fulltrúa þeirra. Covid-19 setti svip sinn á fræðslustarfið á árinu 2021 og ekki var hægt að fara í jafn margar fræðsluheimsóknir og áður. Fræðslan fór einkum fram í gegnum fjarfundarbúnað.
Við tökum einnig virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er námsefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin.
Forritarar framtíðarinnar
Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. Sjóðurinn styrkir skóla til að senda kennara sína á námskeið í forritunar- og tæknikennslu, styður kaup á minni tækjum til slíkrar kennslu ásamt því að gefa notaðan tölvubúnað. Landsbankinn er einn af bakhjörlum sjóðsins.
Iceland Airwaves
Við erum stoltur bakhjarl tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves sem haldin var með afar óhefðbundnum hætti í ár vegna samkomutakmarkana. Landsbankinn hefur í mörg ár hitað upp fyrir hátíðina með því að framleiða ný myndbönd með efnilegu tónlistarfólki. Að þessu sinni unnum við með Inspector Spacetime, Hipsumhaps og tónlistarkonunni Árnýju Margréti. Myndböndin eru á Airwaves-vef Landsbankans. Stuðningur við ungt tónlistarfólk sameinar samfélagsábyrgð bankans og viðleitni til að veita listum og menningu í landinu virkan stuðning.
Lánatryggingasjóðurinn Svanni
Við erum bakhjarl Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna. Svanni veitir lán með lánatryggingum til fyrirtækja í meirihlutaeigu kvenna og er ætlað að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar. Svanni hefur verið í samstarfi við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu um árabil. Fjögur verkefni fengu lán í vorúthlutun sjóðsins 2021; Fæðingarheimili Reykjavíkur, Justikal, Eylíf og FÓLK.
Gulleggið
Við erum styrktaraðili Gulleggsins sem er árleg frumkvöðlakeppni á vegum Icelandic Startups. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga við allt frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.
Skólahreysti
Við erum aðalbakhjarl Skólahreysti og leggjum keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til þátttöku í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Keppnin var haldin í sautjánda sinn í ár, með breyttu sniði vegna Covid-19. Það voru tæplega sjötíu skólar sem skráðu sig til leiks en allar undankeppnir voru í beinni útsendingu þetta árið. Við fengum að sjá fjögur ný Íslandsmet og á endanum var það svo Heiðarskóli sem stóð uppi sem sigurvegari eftir æsispennandi úrslitakeppni í Mýrinni.
Friðriksmótið í skák
Sterkasta hraðskákmót ársins, Friðriksmót Landsbankans – Íslandsmótið í hraðskák, var haldið í útibúinu við Austurstræti í desember. Þetta var í átjánda sinn sem Landsbankinn og Skáksamband Íslands standa fyrir Friðriksmótinu sem haldið er til heiðurs Friðriki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslands.
Knattspyrnusamband Íslands
Við erum bakhjarl Knattspyrnusambands Íslands. Landsbankinn styrkir uppbyggingarstarf íslenskrar knattspyrnu um land allt, öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna.
Undanfarin ár höfum við veitt Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ á mótum yngri flokka um allt land. Með veitingu verðlaunana viljum við hvetja til háttvísi og heiðarlegrar framkomu hjá leikmönnum og annarra er að mótunum koma.
Stuðningur við íþróttir og æskulýðsstarf
Við leggjum okkur fram við að styðja íslenskt íþróttalíf. Útibú bankans gera það með beinum samstarfssamningum við íþróttafélög víða um land. Í slíku samstarfi leggjum við áherslu á stuðning við barna- og unglingastarf.
Félagsstofnun stúdenta og Stúdentaráð HÍ
Farsælt samstarf hefur verið á milli okkar og Félagsstofnunar stúdenta (FS) annars vegar og Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) hins vegar. Saman höfum við staðið fyrir ýmsum verkefnum og viðburðum.
Menningarnótt
Við höfum verið virkur þátttakandi í Menningarnótt frá upphafi og erum bakhjarl hátíðarinnar. Við höfum lagt áherslu á að fjárstuðningurinn renni beint til listafólks og -hópa sem skipuleggja viðburði á Menningarnótt. Með sérstökum Menningarnæturpotti, sem við stöndum að í samvinnu við Höfuðborgarstofu, er frumlegum og sérstökum hugmyndum veitt brautargengi. Menningarnótt var því miður aflýst í ár vegna Covid-19 heimsfaraldursins.
Aldrei fór ég suður
Við erum einn af aðalbakhjörlum rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem alla jafna er haldin á Ísafirði um hverja páska. Ekkert varð þó af hátíðinni í ár vegna Covid-19. Landsbankinn hefur stutt hátíðina allt frá árinu 2010 og með því viljum við leggja okkar af mörkum til að efla grasrótarstarf í íslenskri tónlist.
Háskólasjóður Eimskipafélagsins
Átta doktorsnemar við Háskóla Íslands fengu styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands við úthlutun styrkja úr doktorssjóðum Háskóla Íslands á árinu 2021. Sjóðurinn er í umsjá Landsbankans. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við Háskóla Íslands.
Klasasamstarf í ferðaþjónustu
Við höfum verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar.
Fjártækniklasinn
Við erum einn af stofnaðilum Fjártækniklasans ásamt 62 fyrirtækjum, háskólum, samtökum og fleiri aðilum. Fjártækniklasanum er ætlað að efla nýsköpun í fjármálum og gera viðskipti af öllu tagi auðveldari og betri. Hann er samfélag þeirra sem starfa við fjártækni og vilja stuðla að aukinni verðmætasköpun, samkeppni og bættum lífskjörum.
Ljósið
Á árinu 2021 styrktum við Ljósið í nafni Framúrskarandi fyrirtækja. Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Markmið Ljóssins er að veita sérhæfða endurhæfingu og stuðning með aðstoð fagfólks.
Við gefum út fjölbreytt efni um efnahagsmál og veitum fræðslu um fjármál með margvíslegum hætti.
Fræðsla til einstaklinga
Við birtum fjölda fræðslugreina um fjármál einstaklinga, á vefnum okkar. Í þeim fjallar starfsfólk bankans um ýmislegt sem snýr að fjárhagnum og gefur góð ráð um fjármál heimilisins. Fræðslan er fyrir fólk á öllum aldri og á hinum ýmsu tímamótum í lífinu.
Á árinu 2021 birtust meðal annars fræðslugreinarnar „Þetta er gott að vita áður en þú kaupir hlutabréf“, „Þetta er gott að vita áður en þú kaupir í sjóði“ og „Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?“.
Þau sem voru í fasteignakaupahugleiðingum á árinu gátu m.a. fræðst um efnið í greinunum „Hvað þarf að hafa í huga við fyrstu fasteignakaup?“, „Ætti ég að festa vextina á íbúðaláninu mínu?“ og „Hvort borgar sig að leigja eða kaupa?“.
Í fræðslugreinunum var einnig fjallað um sparnað og má þar nefna greinarnar „Leitin að ávöxtun“ og „Hvernig getur sparnaður stuðlað að sjálfbærara samfélagi?“. Við leggjum áherslu á fræðslu til yngri viðskiptavina okkar sem gátu meðal annars lært um sparnað í greinunum „Hvernig er hægt er að spara hluta af sumarlaununum mínum?“ og „Aldrei of snemmt að byrja að spara“. Við upplýstum þau líka um persónuvernd í greininni „Persónuvernd barna - hvaða upplýsingar vinnur bankinn um þig?“.
Þau sem hugðu á bílakaup gátu fræðst um efnið í greinunum „Hvað þarf að hafa í huga við kaup á bíl“ og „Ertu að hugsa um að kaupa rafbíl?“, svo eitthvað sé nefnt.
Einnig fjölluðum við um hvernig eigi að byrja að spara og fjárfesta í sérstökum hlaðvarpsþætti.
Hlaðvarp
Í hlaðvarpi Landsbankans er fjallað um hlutabréfamarkaðinn og efnahagsmál frá ýmsum hliðum og á mannamáli. Fjallað er um hagkerfið með víðari skírskotun til þátta á borð við ferðaþjónustu, fasteignamarkaðarins, loftslagsmála og fleira. Umfjölluninni er ætlað að auka áhuga og umræðu um hlutabréfamarkaði og efnahagslífið.
Á árinu 2021 var meðal annars fjallað um aukinn áhuga á hlutabréfum, kröftugan efnahagsbata í kjölfar Covid-19-heimsfaraldursins, farið ítarleg yfir hagspá Hagfræðideildar, fjallað um góð uppgjör félaga á markaði, hækkandi fasteignaverð, loftslagsráðstefnuna í Glasgow, jákvæð tíðindi af sjávarútvegi og ferðaþjónustu, og jólaneysluna.
Fjölbreytt umfjöllun um samfélagstend málefni
Á vefnum okkar birtum við líka fjölbreytt efni um starfsemi bankans og samfélagstengd málefni.
Netöryggismálin voru ofarlega á baugi árið 2021 en við höfum lagt mikla áherslu á að upplýsa viðskiptavini okkar og samfélagið um þennan málaflokk. Við birtum m.a. góð ráð um netöryggi og hvernig megi varast kortasvik í tengslum við helstu verslunardaga ársins.
Fræðsla og umfjöllun um sjálfbær fjármál var áberandi hjá okkur. Við birtum m.a. um greinar um nýja fjármálaumgjörð bankans, græna fjármögnun og ábyrgar fjárfestingar. Við fjölluðum um þróun PCAF-aðferðafræðinnar sem mælir kolefnislosun fjármálafyrirtækja og birtum fræðslugrein þegar Landsbankinn, fyrstur banka á Íslandi, birti kolefnislosun frá útlánum. Einnig birtum við greinar um hringrásarhagkerfið, loftslagsmálin og fleira.
Í tengslum við Hinsegin daga birtum við grein um samstarf okkar Samtakanna '78 við listafólk sem unnu listaverk tileinkuð Hinsegin dögum en allur ágóði af sölu verkanna rann til Samtakanna '78. Við birtum grein um Svanna - lánatryggingasjóð kvenna og fjölluðum að auki um þau félög sem fengu úthlutun úr sjóðnum, en bankinn er bakhjarl hans. Einnig birtum við grein um Skólahreysti og myndband með viðtali við stofnendur keppninnar en við höfum verið styrktaraðilar Skólahreysti um árabil.
Við birtum viðtal við þrjá sérfræðinga okkar á Upplýsingatæknisviði en þær fjölluðu um mikilvægi fjölbreytileikans í upplýsingatækni og hvöttu alla, ekki síst stelpur og konur, til að íhuga forritun og hugbúnaðargeirann sem starfsvettvang.
Einnig fjölluðum við um sýningu á íslenskum abstraktverkum úr listasafni bankans í útibúi okkar í Austurstræti og birtum viðtal við framkvæmdastjóra Sky Lagoon um fyrirtækið, ferðaþjónustuna og samstarfið.
Öflug greining á þróun efnahagsmála hjá Hagfræðideild
Hjá Hagfræðideild bankans fer fram öflugt rannsóknarstarf og greining á þróun efnahagsmála sem við miðlum með fjölbreyttum hætti, m.a. á vefnum, í hlaðvarpi og með fundum. Deildin gegnir lykilhlutverki við að móta sýn bankans á þróun og horfur í efnahagslífinu, innanlands sem utan.
Hagfræðideild sendi frá sér fjölda greininga árið 2021 eins og önnur ár. Hagsjáin þeirra er birt nokkrum sinnum í viku á vefnum okkar en það eru pistlar um stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, um fasteignamarkaðinn, verðbólguhorfur, ferðaþjónustuna og fleira. Í Vikubyrjun birtast upplýsingar um stöðuna á mörkuðum, vikan sem leið er gerð upp og sagt er frá því sem framundan er á sviði efnahagsmála, birtingu á hagtölum, uppgjörum og fleira.
Stærsti viðburðurinn á árinu var í október þegar Þjóðhags- og verðbólguspá 2021-2024 var kynnt á fjölmennum fundi í Hörpu. Fundinum var einnig streymt og hagspáin gefin út samhliða á vefnum. Á fundinum ræddu sérfræðingar Hagfræðideildar um spána og horfur á fasteignamarkaði. Á fundinum fjallaði einnig Paul Donovan, aðalhagfræðingur hjá UBS-banka, um hvernig Covid-19-faraldurinn flýtir fyrir áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar.
Sérfræðingar deildarinnar voru að venju áberandi í fjölmiðlum á árinu en mikið er leitað til þeirra sem álitsgjafa um efnahagsmál og vitnað í þau og þeirra greiningar í fjölmiðlum.
Vefkökur
Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.
Tryggja virkni vefsins
Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins
Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar