Ávarp bankastjóra

Við einföldum viðskiptavinum lífið með því að bjóða þeim framúrskarandi stafræna þjónustu en um leið leggjum við áherslu á persónuleg samskipti og faglega ráðgjöf.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans

Úrslitin í Íslensku ánægjuvoginni, þar sem við urðum efst á bankamarkaði þriðja árið í röð, staðfesta að við erum á réttri leið. Þá sýna okkar eigin kannanir að ánægja með þjónustuna fer stöðugt vaxandi. Starfsfólk okkar í Þjónustuverinu, Fyrirtækjamiðstöð og útibúum um allt land, sem er í hvað mestum samskiptum við viðskiptavini, hefur líka fundið að viðskiptavinir eru ánægðir og að traustið í samskiptum hefur aukist. Af þessu erum við mjög stolt og þakklát.

Nýtt skipulag styður stefnu bankans

Frá ársbyrjun 2021 höfum við unnið markvisst eftir nýrri stefnu bankans sem ber heitið Landsbanki nýrra tíma og er stefnunni fylgt eftir með ítarlegum mælikvörðum á árangur. Á árinu var góður taktur í innleiðingu stefnunnar og við náðum öllum helstu markmiðum okkar.

Til að styðja við stefnuna breyttum við og styrktum skipulag bankans með því að mynda nýtt svið þar sem eru sameinaðar mikilvægar deildir sem annast mannauðs- og markaðsmál ásamt greiningu, sjálfbærni og samskiptum.

Nýja sviðið fékk nafnið Samfélag sem endurspeglar áherslu bankans á að vera mikilvægur hlekkur í íslensku samfélagi, brautryðjandi í sjálfbærni og samfélagsábyrgð og er einnig tilvísun í það samfélag sem er innan vinnustaðarins. Með nýju sviði viljum við einnig efla og styrkja þau skilaboð sem koma frá bankanum varðandi fræðslu, samskipti, þróun og mannauðsmál.

Í sinni einföldustu mynd er okkar stefna og sýn á fjármálaþjónustu sú að viðskiptavinir geti sinnt öllum algengustu bankaerindum í sjálfsafgreiðslu. Um leið bjóðum við sérfræðiþekkingu og -ráðgjöf þegar á þarf að halda og árangursríka og trausta eignastýringu. Þjónustan verði sérsniðin að þörfum viðskiptavina, jafnt einstaklinga og fyrirtækja, og eftir því sem fyrirtækin stækka fái þau meiri og sérhæfðari þjónustu. Við veitum alhliða fjármálaþjónustu og við viljum hafa jákvæð áhrif á samfélagið sem við störfum í.

Frábær árangur á árinu 2021

Eins og uppgjörið ber með sér gekk rekstur Landsbankans vel á árinu 2021. Arðsemi bankans var 10,8% sem er í samræmi við okkar markmið. Tekjur hafa aukist en umbætur í rekstri hafa leitt til þess að skilvirkni hefur aukist jafnt og þétt og kostnaður haldist stöðugur mörg undanfarin ár. Á árinu jukust þjónustutekjur töluvert umfram markmið, en sá árangur skýrist einna helst af auknum verðbréfaviðskiptum og góðum árangri í eignastýringu. Við komum að nokkrum vel heppnuðum hlutafjárútboðum á árinu og sá Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans m.a. um frumútboð Síldarvinnslunnar, sem heppnaðist mjög vel.

Góð afkoma bankans og sterk fjárhagsstaða valda því að það er töluvert svigrúm til að greiða út arð til hluthafa. Eigið fé bankans er talsvert umfram kröfur eftirlitsaðila og umfram það sem við teljum hæfilegt til lengri tíma. Við sjáum tækifæri til að bæta fjármagnsskipan bankans með því að lækka eigið fé með arðgreiðslum samhliða aukinni fjölbreytni í fjármögnun.

Rekstur Landsbréfa hefur sömuleiðis gengið vel og vakið athygli en félagið hefur eflst gríðarlega undanfarin ár. Nýleg skipulagsbreyting skilaði sér í sterkari heild, en við hana var öll sjóðastýring færð til Landsbréfa og starfsfólk Landsbankans gat sett enn meiri kraft í sölu og þjónustu við viðskiptavini.

Annar mælikvarði á árangur er að samkvæmt mælingum alþjóðlega matsfyrirtækisins Sustainalytics var bankinn með framúrskarandi einkunn hvað varðar sjálfbærni.

Mæling Sustainalytics tók til banka um allan heim og var Landsbankinn metinn með hverfandi áhættu á að verða fyrir áföllum vegna UFS-þátta, sem er leiðandi niðurstaða á heimsvísu.

Öll keðjan er sterk

Eitt af því sem einkennir bankastarfsemi er að mun meira gerist undir yfirborðinu en viðskiptavinir verða varir við. Sú þjónusta sem við bjóðum, hvort sem hún felst í stafrænum þjónustuleiðum, persónulegri ráðgjöf eða öðru, er yfirleitt síðasta skrefið á langri leið. Til að bjóða framúrskarandi þjónustu þarf öll keðjan að virka. Hjá Landsbankanum er keðjan gríðarlega sterk og á því byggir góður árangur bankans. Hér starfar metnaðarfullt og duglegt starfsfólk og fyrirtækjamenning bankans er öflug og árangursmiðuð. Jafnframt er mikil og góð þekking og stjórnun á áhættuþáttum í rekstri, þjónustu og vöruframboði bankans. Stefna bankans er að hjá okkur hafi starfsfólk aðgang að allri þeirri þjálfun og fræðslu sem þarf til að takast á við örar breytingar og þróast í starfi. Við viljum stuðla að menningu þar sem fólk er óhrætt við að láta í sér heyra og að nýjungar skili sér sem hraðast til viðskiptavina.

Við höldum áfram að leggja áherslu á að styrkja innviði bankans og gera þá sem skilvirkasta og öruggasta. Eitt mikilvægasta verkefnið framundan eru flutningar í nýtt húsnæði. Flutningarnir fela í sér algjöra umbyltingu í starfsaðstöðu og munu stuðla að aukinni samvinnu, styrkja enn frekar fyrirtækjamenningu bankans og auka sýnileika og samskipti starfsfólks. Við finnum að starfsfólk tekur fagnandi því verkefni að flytja sig um set og er tilbúið í breytingarnar sem því fylgja.

Á árinu var lokið við endurskipulagningu Reiknistofu bankanna sem var sameiginlegt verkefni fjármálafyrirtækja og Seðlabankans og er mikilvægur áfangi í að auka hagkvæmni í rekstri fjármálakerfisins. Starfsfólk Landsbankans sýndi mikið frumkvæði í þeirri vinnu. Að okkar mati er afar mikilvægt að gera starfsumhverfi bankanna einfaldara til að við getum betur mætt þeirri samkeppni sem felst í því að stórir erlendir tæknirisar færa sig yfir í fjármálaþjónustu.

Frumkvöðlar við að meta kolefnisspor útlána

Landsbankinn hefur sett sér skýra stefnu um að vinna að sjálfbærni í samfélaginu og á árinu voru sjálfbærnimál í brennidepli. Eitt af því sem bar hæst var að bankinn reiknaði og birti upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá útlánasafni sínu, metið samkvæmt aðferðafræði PCAF (e. Partnership for Carbon Accounting Financials).

Landsbankinn var einn af fyrstu bönkunum á heimsvísu til að meta kolefnisspor útlánasafnsins. Við höfum mörg undanfarin ár unnið að því að rekstur bankans verði sjálfbær og að kolefnisspor vegna rekstursins sé sem minnst.

Mestu áhrifin eru þó ekki vegna eiginlegrar starfsemi bankans, heldur vegna þeirra áhrifa sem útlánasafn bankans hefur. Þegar áhrifin er lögð saman sést að 1% af kolefnisspori bankans er vegna rekstursins og 99% er vegna útlánastarfsemi. Hlutverk okkar er að stuðla að uppbyggingu og velsæld samfélagsins í gegnum okkar starfsemi. Með því að mæla losun frá útlánasafni getum við stutt fyrirtæki og einstaklinga í þeim nauðsynlegu breytingum sem framundan eru.

Ný sjálfbærnistefna og meiri áhersla á sjálfbær fjármál

Á árinu var jafnframt lokið við endurskoðun á sjálfbærnistefnu bankans og við gáfum út okkar fyrstu sjálfbæru fjármálaumgjörð. Á grunni hennar gáfum við út græn skuldabréf og er bankinn nú einn stærsti útgefandi grænna skuldabréfa á landinu. Þá héldum við áfram að aðstoða viðskiptavini, m.a. við að móta þeirra eigin fjármálaumgjarðir vegna útgáfu sjálfbærniskuldabréfa. Hluti af aukinni þjónustu við viðskiptavini er að hjálpa þeim að miðla sinni sjálfbærnivinnu og árið 2021 gáfum við út okkar fyrsta sjálfbærnimerki sem hlotnast þeim fyrirtækjum sem eru með fjármögnun frá bankanum í verkefni sem falla undir skilgreiningar sjálfbæru fjármálaumgjarðarinnar. Þannig geta fyrirtæki nú miðlað vinnu að sjálfbærum verkefnum á sýnilegan hátt. Við kynntum líka tvær vörunýjungar sem gera viðskiptavinum kleift að láta peningana sína vinna að sjálfbærni.

Annars vegar kynntu Landsbréf nýjan fjárfestingarsjóð, Eignadreifing sjálfbær, sem fjárfestir í fyrirtækjum sem eru að ná árangri í sjálfbærni og almennum rekstri, og hins vegar kynntum við Vaxtareikning sjálfbæran en fjármunum sem er lagðir inn á þann reikning er eingöngu ráðstafað til verkefna sem stuðla að sjálfbærni.

Öflugur stuðningur við samfélagið

Hluti af sjálfbærnistefnu bankans felst í fjölbreyttum stuðningi við verkefni sem gagnast samfélaginu. Í gegnum Samfélagssjóð bankans veitum við annars vegar styrki til ýmis konar verkefna og hins vegar námsstyrki til efnilegra námsmanna. Sjóðurinn er þó aðeins hluti af víðtækum stuðningi bankans því við erum einnig í samstarfi við íþrótta- og æskulýðsfélög um land allt, auk þess sem bankinn styrkir sérstaklega ýmis verkefni á borð við Hinsegin daga, Iceland Airwaves, Menningarnótt og Skólahreysti.

Í lok árs 2021 ákváðum við að setja á fót nýjan styrktarsjóð sem ber heitið Sjálfbærnisjóður. Í vor verður í fyrsta sinn úthlutað úr sjóðnum, alls 10 milljónum króna, og að þessu sinni mun sjóðurinn leggja áherslu á verkefni sem tengjast orkuskiptum.

Við erum stolt af þessum stuðningi okkar við samfélagið og finnum að viðskiptavinir okkar kunna vel að meta þessa stefnu.

Aldrei fleiri einstaklingar komið í viðskipti

Við leggjum mikla áherslu á að bjóða samkeppnishæf kjör og höfum undanfarin þrjú ár verið í forystu um að bjóða hagstæðustu kjörin á óverðtryggðum íbúðalánum, auk þess sem við höfum gert ferlið við að sækja um íbúðalán og greiðslumat einstaklega einfalt og skjótvirkt. Þetta hefur leitt til þess að sífellt fleiri kjósa að taka íbúðalán hjá Landsbankanum, hvort sem er vegna fasteignakaupa eða til að endurfjármagna á betri kjörum. Markaðshlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði hefur vaxið hröðum skrefum og er nú um 29,1% ef litið er til heildarútlána en um 41% ef einungis er litið til viðskiptabankanna þriggja. Góð kjör og góð þjónusta spyrjast út og á árinu 2021 fjölgaði einstaklingum í virkum viðskiptum við bankann um 5.100 sem er metfjölgun á einu ári. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði er nú 39,5% og hefur aldrei mælst hærri. Áhersla okkar á að vera til staðar um allt land á sjálfsagt stóran þátt í því að utan höfuðborgarsvæðisins er markaðshlutdeildin enn meiri, eða um 45%.

Aldrei fleiri fyrirtæki komið í viðskipti

Skýr stefna bankans um að bjóða framúrskarandi stafræna þjónustu hefur leitt af sér fjölda nýrra stafrænna lausna og þjónustuleiða sem hafa aukið ánægju og skapað ný viðskiptatækifæri. Sem dæmi má nefna að í desember 2020 var nýskráning í viðskipti fyrir fyrirtæki gerð stafræn þannig að einfalt og fljótlegt varð að skrá fyrirtæki í viðskipti í appinu. Í kjölfarið bættust fleiri fyrirtæki og einyrkjar í hóp viðskiptavina en nokkru sinni fyrr, eða alls um 2.500 á árinu 2021, og var um helmingur af nýjum fyrirtækjaviðskiptum vegna flutnings á milli banka. Markaðshlutdeild okkar á fyrirtækjamarkaði óx í 33,6% en hlutdeild bankans í heildarútlánum til fyrirtækja er sem fyrr rúmlega 40%.

Lykilhlutverk í öflugu atvinnulífi

Við leggjum áherslu á að rækta viðskiptasambönd og styðja við atvinnustarfsemi og vænlegar fjárfestingar. Bankinn er sem fyrr umsvifamikill í útlánum til byggingarstarfsemi og á árinu 2021 fjármagnaði bankinn byggingu um 3.800 íbúða. Um 25.000 heimili fjármagna fasteignakaup með hagstæðum íbúðalánum Landsbankans og að meðaltali tóku rúmlega 700 fjölskyldur og einstaklingar íbúðalán hjá bankanum í hverjum mánuði ársins. Við leggjum áherslu á að aðlaga þjónustu okkar að þörfum viðskiptavina. Á árinu 2022 gerum við ráð fyrir aukinni eftirspurn eftir fyrirtækjalánum, samhliða auknum umsvifum í atvinnulífinu og er það kærkomin breyting frá síðustu tveimur árum þegar fyrirtæki hafa frekar haldið að sér höndum. Þetta er merki um aukna bjartsýni og vonandi um endalok heimsfaraldursins. Við erum um leið reiðubúin að aðstoða fyrirtæki sem eru að sækja sér fjármögnun á skuldabréfamarkað eða með hlutafjárútboðum. Við munum halda áfram að þróa appið og netbankann og bæta við enn fleiri þjónustuþáttum.

Það er sérstaklega ánægjulegt að vanskilahlutfall einstaklinga í viðskiptum við bankann hefur aldrei verið lægra en á árinu 2021.

Hið sama á við um fyrirtæki, þó að í því tilviki verði að hafa í huga að vegna sérstakra úrræða vegna Covid-19 er hlutfallið lægra en það hefði ella verið.

Traust fjármögnun

Fjármögnun hefur gengið vel á árinu og nýstaðfest lánshæfiseinkunn gefur okkur ástæðu til áframhaldandi bjartsýni. Breytingar í heimshagkerfinu í kjölfar Covid-19 munu þó mögulega valda því að fjármögnunarkjör almennt versni. Á móti kemur að fjármögnun bankans er fjölbreytt, m.a. vegna þess að sjálfbær fjármögnunarrammi hefur opnað nýja markaði fyrir bankann. Þá eru innlán frá viðskiptavinum sem treysta okkur til að geyma og ávaxta fjármuni sína um helmingur af fjármögnun bankans. Við munum sem fyrr leggja áherslu á öryggi og traustan rekstur og að bjóða fjölbreyttar leiðir til að ávaxta og geyma fé.

Enn er gjarnan rætt um Landsbankann sem banka allra landsmanna. Um er að ræða gamalt slagorð en við erum stolt af því að vera enn tengd við allt landið.

Við viljum taka stöðugum framförum, vera til staðar um allt land, einfalda líf viðskiptavina og veita framúrskarandi fjármálaþjónustu fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi og fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum.

Við viljum að fólk um land allt velji Landsbankann, fái þannig aðgang að bankaþjónustu allan sólarhringinn og geti leitað til þaulreyndra sérfræðinga og ráðgjafa, hvort sem er á staðnum eða á fjarfundum. Síðast en ekki síst viljum við þróast í takt við samfélagið. Það er Landsbanki nýrra tíma.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur