Fjármögnun

Fjármögnun Landsbankans grundvallast á þremur meginstoðum: Innlánum frá viðskiptavinum, fjármögnun á markaði og eigin fé. Lánshæfiseinkunn Landsbankans er metin BBB/A-2 með stöðugum horfum af S&P Global Ratings.

Lánshæfismat S&P

Innlán frá viðskiptavinum

Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum sem námu 900 milljörðum króna í árslok 2021 og eru að mestu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 107 milljarða króna á árinu. Verðtryggð innlán námu 136 milljörðum króna í lok árs 2021 og hækkuðu um 10 milljarða króna frá fyrra ári.

Fjármögnun á markaði

Skuldabréfaútgáfa á erlendum mörkuðum og erlendar lántökur

Erlendar skuldabréfaútgáfur eru veigamesta stoðin í fjármögnun bankans á markaði. EMTN-skuldabréfarammi bankans er tveir milljarðar evra að stærð og var stækkaður úr 1,5 milljörðum evra á árinu 2017. Fyrstu skref í útgáfum undir rammanum voru tekin haustið 2015 og hefur bankinn verið reglulegur útgefandi á erlendum skuldabréfamörkuðum frá þeim tíma. Á árinu 2021 birti bankinn sjálfbæra fjármálaumgjörð með vottun frá Sustainalytics.

Í febrúar gaf bankinn út sín fyrstu grænu skuldabréf með vísan í sjálfbæru fjármálaumgjörðina. Skuldabréfin eru að fjárhæð 300 milljónir evra og eru til 4,25 ára. Samhliða útgáfunni bauðst bankinn til að kaupa til baka skuldabréf á gjalddaga í mars 2021 og leiddi niðurstaðan til kaupa á skuldabréfum að fjárhæð 48 milljónir evra. Eftirstöðvar skuldabréfsins voru greiddar upp á gjalddaga. Einnig gaf bankinn í febrúar út skuldabréf til 18 mánaða að fjárhæð 900 milljónir sænskra króna.

Í nóvember gaf bankinn út græn skuldabréf til 4,5 ára að fjárhæð 300 milljónir evra samhliða endurkaupatilboði á skuldabréfum á gjalddaga í mars 2022 sem leiddi til endurkaupa að fjárhæð 156 milljónir evra.

Í árslok 2021 námu erlendar skuldabréfaútgáfur samtals 248 milljörðum króna og jukust um 36 milljarða króna á árinu.

Sértryggð skuldabréfaútgáfa

Útgáfurammi bankans fyrir sértryggð skuldabréf er 250 milljarðar króna og var stækkaður úr 200 milljörðum króna á árinu 2020. Útgáfa sértryggðra skuldabréfa undir rammanum er fyrst og fremst ætluð til að fjármagna íbúðalánasafn bankans og draga úr fastvaxtaáhættu.

Á árinu 2021 voru regluleg útboð á sértryggðum skuldabréfum þar sem áður útgefnir flokkar voru stækkaðir. Einn flokkur var á gjalddaga á árinu, óverðtryggði flokkurinn LBANK CB 21. Samningar um viðskiptavakt á eftirmarkaði með sértryggð skuldabréf útgefin af bankanum voru endurnýjaðir á árinu.

Sértryggðar skuldabréfaútgáfur bankans námu 218 milljörðum króna í árslok 2021 og nam aukningin 29 milljörðum króna á árinu.

Víxlaútgáfa

Engin víxlaútboð voru haldin á árinu en bankinn hefur sett upp 50 milljarða króna útgáfuramma fyrir víxla og skuldabréf. Engir víxlar voru á gjalddaga á árinu og engir víxlar voru útistandandi í árslok 2021.

Víkjandi útgáfa

Víkjandi útgáfa í krónum undir útgáfuramma bankans fyrir víxla og skuldabréf nam 5,5 milljörðum króna í árslok og víkjandi útgáfa undir EMTN ramma bankans nam 100 milljónum evra á sama tíma. Báðar útgáfurnar teljast til eiginfjárþáttar 2 og námu samtals 21 milljarði króna í árslok 2021 og var óbreytt frá fyrra ári.

Hlutafé

Eigið fé bankans nam 283 milljörðum króna í árslok 2021 og hækkaði um 24 milljarða króna á árinu.

Landsbankinn greiddi út arð til hluthafa að fjárhæð 4.489 milljónir króna á árinu 2021 og var greiðslan í samræmi við tilmæli frá Seðlabanka Íslands.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans var 26,6% í árslok 2021.

Lánshæfismat

Frá árinu 2014 hefur lánshæfi Landsbankans verið metið af alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu S&P Global Ratings. Í apríl 2020 var lánshæfismat bankans lækkað og er nú BBB/A-2 með stöðugum horfum.

Lánshæfismat S&P Global Ratings
Langtíma BBB
Skammtíma A-2
Horfur Stöðugar
Útgáfudagur Apríl 2020
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur