Gott samstarf skiptir öllu máli

Við finnum að rekstur fyrirtækja sem urðu fyrir áföllum af völdum heimsfaraldursins hefur í mörgum tilfellum tekið vel við sér, þótt ekki hafi þau öll náð fyrri styrk. Sífellt stærri hluti af þjónustu okkar er aðgengilegur í gegnum appið, netbankann og aðrar sjálfsafgreiðslulausnir og það er greinilegt að viðskiptavinir okkar vilja að við höldum áfram á þeirri braut.

Fólk í fyrirtækjarekstri

Heimsfaraldurinn hefur á síðustu tveimur árum haft víðtæk áhrif á alla bankaþjónustu og olli margvíslegum straumhvörfum í þjónustu okkar við fyrirtæki. Við höfum lagt áherslu á að bæta aðgengi fyrirtækja að stafrænni þjónustu allan sólarhringinn, auka hagkvæmni í daglegum bankaviðskiptum og koma sem best til móts við breyttar þarfir fyrirtækja sem sjálf eru háð fjarvinnu starfsfólks og margvíslegum hömlum á staðvinnu. Strax í upphafi faraldurs varð okkur ljóst mikilvægi þess að viðhalda áfram bestu mögulegu upplifun viðskiptavina, halda áfram að veita persónulega þjónustu og finna fleiri leiðir til að veita enn hraðari þjónustu. Árin tvö færðu okkur verðmæta reynslu af öflugri stafrænni þróun sem efldi veg fyrirtækjaviðskipta og skapar áframhaldandi verðmæti til framtíðar fyrir bæði viðskiptavini og bankann.

Viðskiptavinir okkar eru fljótir að aðlagast aðstæðum og tileinka sér nýjungar. Í öllum helstu bankaaðgerðum fyrirtækja, s.s. í innlendum og erlendum greiðslum og innheimtu reikninga, er sjálfsafgreiðsla fyrirtækja á bilinu 97-99%. Núorðið stýrir forsvarsfólk fyrirtækja sjálft aðgangsréttindum starfsfólks í netbankanum, stofnar sjálft notendur í netbankanum, bókhaldstengingar, aðlagar aðgangsréttindi að starfshlutverki notenda og velur viðbætur í netbankann og appið, auk þess að stofna sjálft allar gerðir bankareikninga, debetkorta og kreditkorta. Allt er þetta gert í fáeinum skrefum og viðtökurnar hafa hreint út sagt verið frábærar. Allt á þetta sinn þátt í því að Landsbankinn hefur mælst efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu þrjú ár í röð.

Maður að vinna í tölvu

Fyrirtæki ánægðust með stafrænar lausnir

Viðskiptavinir okkar eru sem fyrr ánægðir með þjónustuna, samkvæmt því sem fram kemur í könnunum Gallup á fyrirtækjamarkaði. Fyrirtæki í viðskiptum við Landsbankann eru þau sem eru ánægðust með þjónustu síns aðalviðskiptabanka. Þá fá sjálfsafgreiðslulausnirnar okkar hæstu einkunn viðskiptavina bankanna og við finnum fyrir mikilli ánægju með þær. Viðskiptavinir okkar voru enn fremur ánægðastir af viðskiptavinum stóru bankanna þriggja með viðbrögð Landsbankans við heimsfaraldri Covid-19.

Stafræn þróun og viðbrögðin við efnahagslegum afleiðingum Covid-19 hafa verið umfangsmestu verkefnin okkar síðastliðin tvö ár og það gleður okkur mjög að viðskiptavinir skuli vera ánægðir með hvernig við leystum úr þeim.

Við fjöllum nánar um stafrænar lausnir í kaflanum um snjallari bankaþjónustu.

Ánægðir viðskiptavinir

Ánægðastir með sinn aðalviðskiptabanka
Sjálfsafgreiðslulausnirnar fengu hæstu einkunn
Ánægðastir með viðbrögð við Covid-19

Hægt að gera flest í appinu

Undanfarið höfum við lagt sérstaka áherslu á að fjölga möguleikum fyrir fyrirtæki í appinu og nú er svo komið að minni og meðalstór fyrirtæki geta notað það til að sinna stærstum hluta sinna bankaviðskipta. Við einfölduðum einnig skráningarferlið og það hefur aldrei verið eins auðvelt fyrir fyrirtæki að koma í bankaviðskipti hjá okkur. Góð þjónusta og framúrskarandi stafrænar lausnir hafa spurst út. Aldrei áður hafa fleiri fyrirtæki komið í viðskipti við bankann og á árinu 2021 bættust tæplega 2.500 fyrirtæki og einyrkjar í hópinn. Af þeim komu um 90% í viðskipti í gegnum sjálfsafgreiðslu.

Markaðshlutdeild bankans meðal fyrirtækja sem skila ársreikningi var 33,6% í lok árs 2021, samkvæmt gögnum og viðmiðum bankans.

Stafræn þjónusta og persónuleg ráðgjöf

Fyrirtækin sem eru í viðskiptum við Landsbankann eru fjölbreytt. Þau eru bæði stór og smá og staðsett um allt land. Við viljum einfalda viðskiptavinum okkar lífið með því að gera þeim kleift að sinna sínum bankaviðskiptum í appinu eða netbankanum þegar þeim hentar. Ef viðskiptavinir þurfa aðstoð er öflugur hópur sérfræðinga til þjónustu reiðubúinn í Þjónustuveri fyrirtækja. Enn fremur geta fyrirtæki reitt sig á trausta ráðgjöf fjölda viðskiptastjóra og annarra sérfræðinga með mikla þekkingu og tengsl við atvinnulífið.

Við leggjum mikið upp úr traustu viðskiptasambandi, persónulegri ráðgjöf og samvinnu til langs tíma. Með því að gera vörur okkur og þjónustu enn aðgengilegri í gegnum netbankann og appið skapast meira svigrúm og tími fyrir persónlega og faglega ráðgjöf um stóru málin. Við finnum að fyrirtæki kunna að meta þessa stefnu.

Vilja koma auga á þarfir viðskiptavina

„Starfið mitt er mjög fjölbreytt. Í grunninn er þetta vinna við að vega og meta útlánatækifæri, fylgjast með útistandandi lánum og vera í reglulegum samskiptum við stjórnendur fyrirtækja. Við viðskiptastjórarnir erum jafnframt tengiliðir fyrirtækjanna inn í bankann. Það þýðir að við erum í miklu sambandi við starfsfólk víðsvegar um bankann þar sem fyrirtæki þurfa iðulega á margþættri þjónustu að halda sem nær út fyrir sérsvið starfsfólks Fyrirtækjasviðs. Okkar hlutverk er m.a. að koma auga á þarfir viðskiptavinarins og liðka fyrir viðskiptum við aðrar deildir og svið bankans. Síðan má ekki gleyma hinum ýmsu reddingum sem falla til innan dagsins, upplýsingagjöf til viðskiptavina, ráðgjöf og önnur erindi.

Bláa lónið

Vel heppnuð fundaröð

Í tengslum við útgáfu hagspár Hagfræðideildar Landsbankans í maí 2021 stóðum við fyrir fjarfundaröð um efnahagsmál, ferðaþjónustu og hringrásarhagkerfið. Fundirnir voru fjórir talsins og haldnir hringinn í kringum landið fyrir ýmist landsfjórðung eða landsfjórðunga saman. Góðir gestir frá hverju landsvæði fyrir sig héldu einnig erindi á fundunum sem heppnuðust afar vel.

Vel heppnuð hlutafjárútboð

Fyrirtækjaráðgjöf bankans náði mjög góðum árangri og annaðist eða tók þátt í mörgum vel heppnuðum verkefnum. Í maí sáum við um almennt hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hf. og skráningu félagsins á Aðallista Kauphallarinnar og vorum að vonum ánægð með rúmlega tvöfalda eftirspurn í útboðinu. Um 6.500 nýir hluthafar bættust í hluthafahópinn og keyptu hlutabréf í félaginu fyrir 29,7 milljarða króna. Við tókum einnig þátt í framkvæmd á hlutafjárútboði Íslandsbanka hf. í júní sl. Þá bættust um 24.000 nýir hluthafar við og keyptu nýtt hlutafé fyrir um 55 milljarða króna en í því tilfelli var eftirspurnin níföld.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi við framkvæmd nýtingar áskriftarréttinda Icelandair, sá um vel heppnuð skuldabréfaútboð fyrir ýmis félög og hafði umsjón með útgáfu og töku skuldabréfa þeirra til viðskipta í Kauphöll.

Fyrirtækjaráðgjöf var ráðgjafi Regins hf. í viðskiptum um fasteignaþróunarfélag með Klasa ehf. og Högum hf. Reginn og Hagar undirrituðu samning um áskrift að hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa. Með samningnum eignast Reginn þriðjung hlutafjár í Klasa og munu félögin ganga til samstarfs um frekari uppbyggingu Klasa og dótturfélaga þess. Á meðal markmiða þeirra er að leggja áherslu á sjálfbærni við þróun og uppbyggingu eigna félaganna. Hið sameinaða félag mun geta stutt við fjölbreytta og sjálfbæra borgarþróun, þ.e. blöndu af fjölbreyttu atvinnu- og þjónustuhúsnæði og íbúðum.

Áhersla á sjálfbæra fjármögnun fyrirtækja

Við erum leiðandi í sjálfbærri fjármögnun og verkefnum á því sviði fer fjölgandi. Á árinu 2021 kynntum við sjálfbærnimerki Landsbankans sem fyrirtæki, sem eru með lán hjá okkur, geta óskað eftir. Til að fá merkið þarf verkefnið sem fjármagnað er að uppfylla skilyrði um sjálfbærni og falla undir einn af þeim ellefu verkefnaflokkum sem tilgreindir eru í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans. Dæmi um sjálfbær verkefni eru til að mynda orkuskipti í samgöngum, endurnýjanleg raforkuframleiðsla, sjálfbærnivottaðar fiskveiðar, vistvænar byggingar og verkefni sem stuðla að félagslegri uppbyggingu. Fyrsta fyrirtækið til að hljóta sjálfbærnimerkið var Útgerðarfélag Reykjavíkur og síðar á árinu bættust Orka náttúrunnar og Ljósleiðarinn í hópinn.

Menn að störfum við virkjun

Innlánin geta líka verið sjálfbær

Það eru ekki bara útlánin sem eru sjálfbær því á árinu kynntum við nýjan sjálfbæran innlánsreikning, Vaxtareikningur sjálfbær, sem stendur bæði fyrirtækjum og einstaklingum til boða. Innlánum á Vaxtareikningi sjálfbærum er ráðstafað til fjármögnunar á verkefnum sem stuðla að sjálfbærni, samkvæmt sjálfbærri fjármálaumgjörð Landsbankans, með sama hætti og sjálfbæra fjármögnunin. Með þessum innlánum geta fyrirtæki ávaxtað lausafé og um leið haft jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.

Mörg fyrirtæki héldu að sér höndum

Útlán drógust saman um 2,8% á árinu en fyrirtæki héldu enn að sér höndum vegna faraldursins. Markaðshlutdeild í útlánum til fyrirtækja var engu að síður 41,5% miðað við 9 mánaða uppgjör viðskiptabankanna þriggja árið 2021 og jókst lítillega frá fyrra ári. Fyrirtæki gátu sótt um stuðningslán fram til 31. maí 2021 og þeim sem höfðu áður tekið stuðningslán var boðið að hliðra lánstíma og endurgreiðslum um 12 mánuði í samræmi við reglur stjórnvalda. Flest fyrirtækin sem nýttu sér þetta voru í ferðaþjónustu, enda hefur sú atvinnugrein komið einna verst út úr faraldrinum.

Menn gera við tæki

Stóraukin útlán vegna kaupa á bílum og tækjum

Mikill samdráttur varð í fjárfestingum fyrirtækja í bílum og tækjum árið 2020 og þá sérstaklega hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Fjárfestingar fóru hægt af stað árið 2021 en tóku síðan við sér enda greinilega mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf. Niðurstaðan varð að mikil aukning var á útlánum vegna bíla- og tækjafjármögnunar, samanborið við undanfarin tvö ár, eða 73% frá fyrra ári.

Vistvænni bílar og tæki

Sífellt stærri hluti af útlánum Bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans til fyrirtækja er vegna vistvænni bíla og tækja. Tæplega 70% af öllum nýskráðum fólksbifreiðum á árinu 2021 voru rafmagns- eða tvíorkubílar. Þessi þróun kom vel fram í útlánum.

Fjármögnum fleiri óhagnaðardrifin verkefni

Landsbankinn hefur verið leiðandi í mannvirkjafjármögnun á undanförnum árum. Við höfum lagt áherslu á að eiga tíð samskipti við viðskiptavini okkar með það að leiðarljósi að skilja og greina þarfir þeirra.

Á árinu 2021 vorum við áfram umsvifamikil í greininni og fjármagnaði bankinn nýtt íbúðarhúsnæði bæði fyrir almennan markað og leigumarkað. Verkefnin eru víða um land, þó flest séu sem fyrr á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi nýrra byggingarverkefna sem bankinn fjármagnar er hafinn eða í undirbúningi. Framkvæmdafjármögnun vegna óhagnaðardrifinna verkefna hefur aukist verulega samfara miklum krafti í uppbyggingu leiguíbúða og uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir fyrstu kaupendur.

Stór byggingarverkefni
43
verkefni
Minni byggingarverkefni
48
verkefni
Íbúðir sem við fjármögnum
3.781
íbúðir
Almennar leiguíbúðir
858
íbúðir

Ný útlán til byggingarstarfsemi eru sveiflukennd og fara m.a. eftir því hversu hratt tekst að selja eignir. Sala íbúðarhúsnæðis á árinu 2021 var gríðarlega hröð og algengt að byrjað væri að selja eignirnar á byggingartíma. Þessi þróun olli því að þörf fyrir lánsfé minnkaði og þar með lækkuðu útlán til þeirra verkefna, þrátt fyrir að fyrir lægju hærri lánsloforð til verkefnanna.

Stöndum með ferðaþjónustunni

Við héldum áfram að vinna náið með viðskiptavinum við að fást við þær miklu breytingar sem faraldurinn hefur haft í för með sér.

Fyrirtæki sem tengjast ferðaþjónustunni með einum eða öðrum hætti hafa átt undir högg að sækja og hafa þurft að takast á við ófyrirsjáanlegar aðstæður og síbreytilegar ráðstafanir vegna Covid-19. Við höfum reynt eftir fremsta megni að koma til móts við ólíkar þarfir viðskiptavina í ferðaþjónustu og tryggja eins og framast er unnt að þau verði tilbúin til að takast á við aukinn ferðamannastraum þegar faraldrinum linnir.

Bréfaklemmur
Fjöldi ferðamanna
2019 2.013.200
2020 486.308
2021 687.789
2022 1.500.000*
2023 1.800.000*
Tölur Ferðamálastofu
*Spá Hagfræðideildar Landsbankans

Góður gangur í sjávarútvegi

Eftir miklar áskoranir og varnarbaráttu á árinu 2020 sóttu sjávarútvegsfélögin fram að nýju á árinu 2021. Fjárfestingar jukust og framleiðsla og sala gekk betur. Horfur eru jafnframt góðar fyrir næsta ár, sérstaklega hvað varðar loðnuveiðar og -vinnslu. Góður árangur varð einnig í fiskeldi og árið 2021 var metár í framleiðslu og sölu. Tækifæri til frekari vaxtar eru enn til staðar á næstu árum, bæði í sjó- og ekki síður landeldi.

Lán til sjávarútvegsfyrirtækja mynda að nýju stærsta lánasafn bankans, fyrir utan lán til einstaklinga. Velgengni í sjávarútvegi endurspeglast einnig í gæðum lánasafnsins en vanskil eru í lágmarki. Við leggjum hér eftir sem hingað til áherslu á að vaxa með viðskiptavinum okkar og styðja við þá í þeirra vegferð. Við erum vakandi fyrir þeim tækifærum sem upp koma í sjávarútvegi og viljum vera leiðandi í fjármálaþjónustu við íslensk sjávarútvegsfélög.

Miklar breytingar í verslun og þjónustu

Almennt gekk rekstur verslunar- og þjónustufyrirtækja vel á árinu 2021 en þessi félög hafa mætt miklum rekstraráskorunum síðastliðið ár. Innkaupa- og neysluvenjur fólks hafa gjörbreyst í faraldrinum með stórauknum netviðskiptum sem kallað hefur á miklar og hraðar breytingar hjá verslunar- og þjónustufyrirtækjum til að aðlagast breyttum aðstæðum. Við höfum verið leiðandi í viðskiptum við fyrirtæki í verslun og þjónustu og höfum staðið þétt við bakið á viðskiptavinum okkar á árinu.

Landbúnaðurinn hefur haldið velli í heimsfaraldrinum

Landbúnaðurinn hefur haldið velli í heimsfaraldrinum, framleiðsla gengið hnökralaust, sala gengið vel en markaðurinn breyst. Smásala jókst umtalsvert á árinu en sala til stórnotenda minnkaði.

Uppbygging og endurskipulagning heldur áfram í mjólkurframleiðslu. Framleiðendum í mjólk fækkar og þeim sem áfram halda hefur tekist að styrkja sig með kaupum á kvóta og fjárfestingu í aukinni sjálfvirkni. Framleiðsla á grænmeti gengur almennt vel og tækifæri eru til að gera enn betur með stækkun rekstrareininga og aukinni fjölbreytni afurða. Sem fyrr á sauðfjárbúskapur undir högg að sækja. Landbúnaður hefur alla tíð skipað stóran sess í starfsemi bankans og svo mun verða áfram. Við ætlum áfram að vera öflugur samherji bænda.

Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Tryggja virkni vefsins

Greina notkun svo við getum mælt og aukið gæði vefsins

Notaðar til að birta persónubundnar auglýsingar

Nánar um vefkökur