Þegar nýtt lán er greitt út er verkefnið oftast bara rétt að byrja. Við þurfum að vera í miklum samskiptum við stjórnendur fyrirtækjanna og mikilvægt er að fylgjast grannt með gangi mála. Við förum til dæmis reglulega í heimsóknir til viðskiptavina en slíkar heimsóknir styrkja viðskiptasambandið. Við viðskiptastjórarnir finnum gjörla að viðskiptavinir kunna vel að meta þessar heimsóknir.
Eitt af fyrirtækjunum sem ég er viðskiptastjóri fyrir er Algalíf í Reykjanesbæ. Algalíf framleiðir andoxunarefnið astaxanthin sem er unnið með ræktun örþörunga og selt sem vítamín og fæðubótarefni. Samstarfið við Algalíf byrjaði fyrir alvöru árið 2015, þegar bankinn samþykkti að veita félaginu um 900 milljóna króna fjármögnun vegna stækkunar á verksmiðju þess að Ásbrú. Norskir eigendur félagsins höfðu þá þegar lagt félaginu til svipaða fjárhæð og framleiðsla á afurð félagsins gekk vel. Við töldum þetta því rétta tímapunktinn til að koma með fjármögnun inn í fyrirtækið. Við gerðum okkur þó grein fyrir því að það voru enn óvissuþættir og ákveðin áhætta fólgin í verkefninu. Staða félagsins í dag er góð og samstarfið við Orra Björnsson, forstjóra, og eigendur félagsins hefur verið til fyrirmyndar frá upphafi. Það hefur byggst upp traust og trúverðugleiki sem er lykilatriði í svona verkefnum.“